Erlent

Um 70 prósent landsmanna búa við sára fátækt

Birta Björnsdóttir skrifar
Fimm ár eru liðin frá upphafi stríðsátaka í Sýrlandi. Innviðir landsins eru í molum og um 70 prósent landsmanna búa við sára fátækt.

Það gefur augaleið að áralangt stríðsástand, loftárásir og skæruhernaður öfgasamtaka setur mark sitt á landsvæði. Því er vert að staldra við, fimm árum eftir að átök hófust í Sýrlandi, og skoða áhrifin sem ófriðurinn hefur haft á landið.

Árið 2011 bjuggu 24,5 milljónir manna í Sýrlandi, en nú búa þar 17,9 milljónir. Sex milljónir Sýrlendinga flokkast sem flóttamenn, fólk sem þurft hefur að flýja heimkynni sín. Tala látinna er á reiki, en talið er að ekki færri en 250.000 Sýrlendingar hafi látist vegna stríðsátakanna undanfarin fimm ár. Það tæki um 19 klukkustundir að lesa upp nöfn þeirra allra.

Atvinnuleysi í Sýrlandi mældist um 14 prósent árið 2011, í dag er helmingur alls vinnufærs fólks í landinu án atvinnu. Um 70 prósent landsmanna býr við sára fátækt og eiga í vandræðum með að verða sér út um helstu nauðsynjavörur.

Samdráttur í matvælaframleiðslu og stopul matarhjálp skilar sér í himinháu vöruverði í Sýrlandi. Sem dæmi má nefna að á undanförnum fimm árum hefur mjólk hækkað um 15.000 prósent í verði, brauð um 3.543 prósent og hveiti um 1.166 prósent að meðaltali á landsvísu.

40 prósent Sýrlendinga hafa engan aðgang að grunn heilbrigðisþjónustu og tæplega 60 prósent þeirra 113 spítala sem starfræktir voru í landinu fyrir fimm árum, eru ýmist lokaðir eða aðeins starfhæfir að hluta.

Yfirvöld í Sýrlandi og uppreisnarmenn, ásamt vesturveldunum og  Sameinuðu þjóðunum, hafa skipulagt vopnahlé og friðarviðræður undanfarnar vikur. Ljóst er að mikið verk er fyrir höndum til að sætta stríðandi fylkingar og hefja uppbyggingu til að koma Sýrlandi aftur í upprunalegt horf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×