Skoðun

Nýskipan bankakerfisins

Gunnar Tómasson skrifar
Íslenzka ríkið á Landsbankann og Íslandsbanka að fullu ásamt 13% hlut í Arion banka á móti 87% hlut þrotabús Kaupþings.

Stefnt er að sölu þess hluta og verður söluandvirði umfram 100 milljarða króna skipt á milli þrotabúsins og ríkisins í ákveðnum hlutföllum. Alþingi hefur gefið heimild til sölu á allt að 30% af eignarhluta ríkisins í Landsbankanum og ráðgert er að selja Íslandsbanka að fullu. Hópur fjögurra stærstu lífeyrissjóða landsins hefur átt í viðræðum um kaup á hluta í Arion banka en einn þeirra, Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna, hefur núna dregið sig út úr þeim. Af og til hefur verið greint frá áhuga fjárfesta í Asíu á kaupum á Íslandsbanka en ekki er ljóst hvort hann er enn til staðar. Átta árum eftir hrun er bankakerfið, sem spratt upp af rústum gamla Landsbanka, Kaupþings og Glitnis, að mestu óbreytt að undanskildu stórauknu eignarhaldi ríkisins.

Uppspretta hagnaðar nýja Landsbanka, Íslandsbanka og Arion banka hefur að mestu legið í virðisaukningu yfirtekinna eigna gömlu bankanna en ekki almennri þjónustu við fyrirtæki og almenning.

Að því marki sem hugmyndir stjórnvalda (og þrotabús Kaupþings) um söluandvirði hluta í bönkunum endurspegla ekki verri afkomuhorfur þeirra, þá mun eftirspurn eftir eignarhlutum ríkisins í þeim verða dræm. Ef fyrirheit um lægra vaxtastig eftir kosningar eru talin vera trúverðug, þá versna enn horfur um sölu eignarhluta ríkisins á viðunandi verði.

Hins vegar myndi hávaxtastefna Seðlabanka Íslands og fákeppni í bankakerfinu gera nýjum eigendum bankanna kleift að hámarka hagnað með háum lánavöxtum og þjónustugjöldum viðskiptavina. Ef svo fer fram sem horfir þá má því ætla að íslenzka bankakerfið verði nánast óbreytt árið 2020 frá því sem var 2008 – að margumtöluð nauðsyn á breytingu til batnaðar muni ekki raungerast á kjörtímabilinu.

Sala eignarhluta ríkisins í bönkunum myndi því endurnýja lífdaga gamla hrunkerfisins.

Annar valkostur – og hér er hugsað út fyrir boxið – væri í stuttu máli þessi:

1. Landsbankinn, Íslandsbanki og (síðar) Arion banki verði áfram í ríkiseigu.

2. Almenningur fengi ákveðinn hluta – t.d. 50% – útgreidds hagnaðar hvers árs.

3. Hinn hlutinn – 50% – færi í ríkissjóð til stuðnings uppbyggingu innviða samfélagsins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Sjá meira


×