Erlent

Mannræninginn í Suður-Karólínu játaði á sig sjö morð

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Kohlhepp játaði meðal annars í nótt að hafa skotið til bana fjórar manneskjur í mótorhjólabúð í grennd við borgina Spartanburg árið 2003.
Kohlhepp játaði meðal annars í nótt að hafa skotið til bana fjórar manneskjur í mótorhjólabúð í grennd við borgina Spartanburg árið 2003. Vísir/EPA/Getty
Bandarískur maður sem var handtekinn eftir að kona fannst hlekkjuð í gámi við skelfilegar aðstæður á landareign hans hefur játað að hafa framið sjö morð. Lögregla hefur fundið þrjú lík grafin á landareigninni, meðal annars lík unnusta konunnar sem maðurinn hélt fanginni.

Málið hefur vakið mikinn óhug í Bandaríkjunum, en fjölmiðlar fjölluðu töluvert um hvarf þeirra Kölu Brown og Charles Davids Carver í ágúst síðastliðnum. Það var ekki síst vegna þess að svo virtist sem mannræninginn hefði komist inn á Facebook-síðu Carvers og sent fjölskyldumeðlimum parsins skilaboð þar sem því var haldið fram að það væri í lagi með þau.

Það var svo á fimmtudag sem lögregluyfirvöld í Suður-Karólínu fundu hina þrjátíu ára gömlu Kölu Brown, eftir að hafa fengið ábendingu um öskur úr flutningagámi á landareigninni. Hún var í miklu áfalli er hún fannst í gámnum. Hún var hlekkjuð með keðju um hálsinn eins og hundur, að sögn lögregluyfirvalda. Aðstæður í gámnum voru skelfilegar, þar var gluggalaust, ekkert ljós og engin loftræsting.

Todd Kohlhepp, dæmdur kynferðisafbrotamaður og eigandi landsins þar sem Brown fannst, var svo handtekinn í tengslum við málið. Konan er talin hafa unnið fyrir Kohlhlepp, sem er skráður fasteignasali, en komið hefur í ljós að hann hefur áður verið dæmdur fyrir mannrán.

Brown tjáði lögreglunni eftir að hún var leyst úr prísundinni að að sig grunaði að fjögur lík væru á eigninni, og að hún hefði séð mannræningjann skjóta unnusta sinn til bana. Í gær fannst fyrsta líkið á landareigninni og hefur lögregla nú staðfest að það sé lík Carvers.

Kohlhepp játaði meðal annars í nótt að hafa skotið til bana fjórar manneskjur í mótorhjólabúð í grennd við borgina Spartanburg árið 2003. Chuck Wright, lögreglustjóri sem fer með rannsókn málsins, útilokar ekki að Kohlhepp hafi myrt fleiri og er yfirheyrslum og rannsókn málsins hvergi nærri lokið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×