Menning

Algjör rokkstjarna í litabókabransanum

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Hanna Karlzon.
Hanna Karlzon. Mynd/Samuel Pettersson
„Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem til íslands og hef þær hugmyndir að Ísland sé algjörlega töfrandi staður. Ég er viss um að ég mun fá góðan innblástur fyrir listsköpun mína hér,“ segir Hanna Karlzon sænskur hönnuður og menntaður myndlistakennari.

Hanna er konan á bak við litabækurnar sem allir elska. Í dag kemur bókin Dagdraumar eftir hana út á Íslandi en heimurinn bíður einnig í ofvæni eftir næstu litabókinni hennar, Sommarnatt, sem kemur út í apríl á heimsvísu.

Hanna kom til Íslands í gær og verður viðstödd litapartí í A4 Skeifunni í kvöld frá klukkan 20.00 í tilefni af útgáfu Dagdrauma. Þar mun hún segja fólki frá bakgrunni sínum og hvernig hún rakst inn í þennan litaheim.

Allar teikningar Hönnu eru handunnar og kýs hún helst að nota blek við listsköpun sína. Hanna er þekkt fyrir að leyfa smáatriðunum að njóta sín en henni finnst skemmtilegast að teikna blóm, tré, hús og dýr. Innblásturinn fær hún frá náttúrunni og oft eru teikningar hennar sveipaðar dulúð og draumkenndum tilfinningum.

Bókaforlagið Draumsýn gefur út bækur Hönnu.
„Ég fæ mestan innblástur frá náttúrunni í kring um mig hér í Norður-Svíþjóð þar sem ég bý. Móðir mín býr í gömlu húsi sem hefur tilheyrt fjölskyldunni okkar í gegn um margar kynslóðir. Húsið stendur alveg í skógarjaðrinum og það er æðislegur garður í kring um húsið. Þegar ég leita að hugmyndum fyrir teikningarnar mínar hugsa ég alltaf um þennan fallega stað. Þegar ég teikna myndirnar mínar reyni ég að sameina náttúruna og æskuminningar, svo finnst mér gaman að bæta við draumkenndu ívafi,“ segir Hanna Karlzon.

Smáatriðin eru áberandi í teikningum Hönnu og litabækurnar hennar hafa rokið út eins og heitar lummur. Framleiðslan hefur aukist mikið undanfarin ár vegna mikillar eftirspurnar og vinsælda. En hvað ætli taki langan tíma að teikna mynd sem hefur þessi óteljandi smáatriði?

„Það fer alveg eftir því hversu flókin myndin er, ef ég er í stuði og teikna heila opnu getur það tekið allt að tvo daga, en ef ég er að gera eina mynd tekur það einn dag. Ég verð nánast aldrei óþolinmóð þegar ég er að skapa og teikna, en það getur komið fyrir. Sérstaklega þegar ég er alveg að verða búin með mynd og er farin að sjá fyrir mér næstu mynd. Svo hefur það líka komið fyrir þegar ég er að renna út á tíma,“ segir Hanna Karlson og bætir við að það að teikna taki tíma og er alveg sátt við það.

Hanna hefur teiknað myndir frá því hún man eftir sér, en stíll hennar hefur þróast mikið enda er ferillinn langur hjá þessari stjörnulistakonu sem hefur vakið athygli um allan heim.

„Ég hef verðið að teikna alveg síðan ég man eftir mér, í upphafi var ég mest í  grafík teikningum og málverkum. Þessar svokölluðu blekteikningar sem ég er að gera núna hef ég verið að þróa síðustu ár. Þegar ég var að byrja að teikna gerði ég blekmyndir því ég var mikið að vinna með silkiþrykk. Ég teiknaði mína eigin hönnun og þrykkti á föt. Eftir talsverðan tíma í þeirri vinnu ákvað ég að einbeita mér hægt og rólega einungis að teikningum og ákvað að halda mig við hreinar blekteikningar. Stuttu síðar fór ég að gera litabækurnar og þá fór ég að þróa teikningarnar mínar ennþá meira. Ég þróaði myndirnar þannig að það væri auðveldlega hægt að teikna þær en á sama tíma væru þær líka flottar einar og sér án lita,“ segir Hanna létt í bragði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×