Erlent

Áróðursmálaráðherra ISIS lét lífið í loftárásum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Enn þrengir að ISIS í Sýrlandi.
Enn þrengir að ISIS í Sýrlandi. Vísir/AFP
Talsmenn bandaríska varnarmálaráðuneytisins segja að Wa'il Adil Hasan Salman al-Fayad, áróðursmálaráðherra ISIS og einn helsti leiðtogi samtakanna hafi látið lífið í loftárásum Bandaríkjanna í Sýrlandi.

Gekk hann undir viðurnefninu Dr. Wa'il og sá um áróðursmál ISIS, þar á meðal framleiðslu á myndböndum þar sem ISIS-liðar sjást taka andstæðinga sína af lífi. Vakti hvert myndband gjarnan mikla athygli.

Í yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneytinu segir að Wa'il hafi látið lífið í loftárás sem gerð var í grennd við Raqqa, helsta vígi ISIS, þann 7. september. Var hann náinn samstarfsmaður Muhammad al-Adnani, herfræðing ISIS og Abu Mohamed al-Adnan, sérfræðing ISIS í áróðursmálum, en þeir tveir voru báðir drepnir í loftárásum í síðasta mánuði.

Mjög hefur þrengt að ISIS undanfarna mánuði og er sótt að hryðjuverkasamtökunum úr öllum áttum. Segir varnarmálaráðuneytið að loftárásir á helstu leiðtoga ISIS geri það að verkum að erfiðara sé fyrir samtökin að halda landsvæði sínu og skipuleggja árásir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×