Enski boltinn

Endurheimtu íslenska landsliðsfyrirliðann og unnu mikilvægan sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Vísir/Getty
Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff unnu 2-1 sigur á Bristol City í Íslendingaslag í ensku b-deildinni í fótbolta í kvöld.

Þetta var mikilvægur sigur hjá Cardiff enda hefur gengið illa að undanförnu og þeir voru að mæta öflugu liði Bristol City sem sat í fimmta sæti deildarinnar fyrir leikinn eða 18 sætum ofar en Cardiff.

Cardiff endurheimti íslenska landsliðsfyrirliðann inn á miðjuna og tókst að enda taphrinuna. Það munaði vissulega mikið um íslenska víkinginn.

Aron Einar Gunnarsson spilaði allan leikinn með Cardiff City og Hörður Björgvin Magnússon var allan tímann í miðri vörn Bristol City.

Neil Warnock vann því í sínum fyrsta leik sem knattspyrnustjóri Cardiff City en hann tók við liðinu af Paul Trollope í landsleikjahléinu.

Aron Einar Gunnarsson kom aftur inn í liðið hjá Cardiff eftir meiðsli en hann hafði misst af síðustu þremur leikjum. Tveir þeir síðustu höfðu tapast sem kostaði Paul Trollope starfið.

Peter Whittingham kom Cardiff í 1-0 með marki úr vítaspyrnu á 25. mínútu og Souleymane Bamba skoraði síðan annað mark á 67. mínútu. Aron Einar Gunnarson átti þátt í seinna markinu sem kom eftir hornspyrnu.

Lee Tomlin minnkaði muninn í 2-1 aðeins þremur mínútum eftir seinna mark Cardiff. Aron Einar var mjög ósáttur við leikmenn Bristol City sem héldu áfram að spila þótt að einn leikmaður Cardiff lægi meiddur í grasinu.

Aron Einar fékk á endanum gult spjald fyrir mótmæli. Það var síðan spenna í lokin en alls voru sjö mínútum bætt við. Bristol City reyndi að jafna leikinn en Cardiff liðið hélt út og landaði þremur stigum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×