Skoðun

Óheiðarleikinn verðlaunaður

Jóhannes Ingi Kolbeinsson skrifar
Það hefur oft verið sorglegt að lesa íslenskar viðskiptafréttir síðustu árin. Hneykslismál koma reglulega upp þar sem í ljós kemur að stjórnendur og eigendur maka krókinn á kostnað annarra – viðskiptavina, smærri hluthafa eða jafnvel allra skattborgara. Málin fara hátt til að byrja með og stóru orðin eru ekki spöruð.

En svo fellur umræðan niður og þá er komið að því sorglegasta. Hinir brotlegu anda léttar, ekki bara af því að umræðan hefur beinst annað heldur líka af því að þeir sjá að svikin hafa lítil eða engin áhrif haft á afkomuna. Viðskiptavinir – almenningur eða önnur fyrirtæki – fylgja ekki orðum eftir með gjörðum og hinir brotlegu geta haldið áfram starfsemi sinni eins og ekkert hafi í skorist. Sárast svíður þetta hjá stjórnendum þeirra fyrirtækja sem fara eftir lögum og reglum því þeir sjá ekki betur en þeim sé refsað fyrir að stunda heiðarlega viðskiptahætti.

„Góðkunningjar lögreglunnar“

Þetta hefur að mínu mati skapað mjög óeðlilegt umhverfi víða í íslensku atvinnulífi. Stjórnendur og eigendur fyrirtækja sjá að ávinningurinn af glæpsamlegu athæfi er mun meiri en skaðinn og því er einfaldlega tekin ákvörðun um að starfa með slíkum hætti. Þannig finnast fjölmörg dæmi um „góðkunningja lögreglunnar“ meðal stærstu fyrirtækjanna í íslensku viðskiptalífi.

Sjáum t.d. hvernig tryggingafyrirtækin voru á sínum tíma mjólkuð af eigendum sínum og nú er sagan farin að endurtaka sig með svimandi háum arðgreiðslum. Annað dæmi er greiðslukortamarkaðurinn þar sem ég starfa þar sem hin fyrirtækin á markaðnum hafa slegið hvert metið á fætur öðru í sektum vegna samkeppnislagabrota. Háttsemi stærsta fjarskiptafyrirtækis landsins kemur reglulega inn á borð Samkeppniseftirlitsins, olíufyrirtækin eru enn einu sinni til skoðunar og bankastjóri Arion banka hefur röð samkeppnislagabrota á ferilskránni. Svo mætti lengi telja.

Við höfum valdið

Eigum við neytendur kannski bara skilið að láta hlunnfara okkur síendurtekið? Við verðlaunum óheiðarlegt framferði fyrirtækja allt of oft með áframhaldandi viðskiptum og þá breytist ekkert. Ef við erum í alvöru ósátt við sviksemi og óeðlilega starfshætti verðum við að sýna að slík hegðun hefur afleiðingar. Hættum að skipta við óheiðarleg fyrirtæki, færum viðskiptin annað og þá fyrst fara eigendur og stjórnendur að sjá að það borgi sig að starfa heiðarlega. Það skiptir máli við hverja við skiptum.




Skoðun

Sjá meira


×