Enski boltinn

Sunderland vann og sendi Norwich og Newcastle niður | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sunderland bjargaði sér frá falli með frábærum endaspretti.
Sunderland bjargaði sér frá falli með frábærum endaspretti. vísir/getty
Úrslitin réðust í fallbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Sunderland var í lykilstöðu fyrir leikinn í kvöld og með sigri hefðu lærisveinar Sams Allardyce bjargað sér frá falli. Og það gerðu þeir með stæl með 3-0 sigri á heillum horfnu liði Everton sem hefur tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum.

Varnarmenn Sunderland sáu um að skora mörkin á Ljósvangi í kvöld. Patrick van Aanholt kom heimamönnum á bragðið á 38. mínútu og fjórum mínútum síðar jók Lamine Koné muninn í 2-0.

Hann bætti svo öðru marki sínu og þriðja marki Sunderland við á 55. mínútu og öruggur 3-0 sigur strákanna hans Allardyce því staðreynd.

Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan.

Norwich dugði því ekki að vinna 4-2 sigur á Watford og Kanarífuglarnir fylgja Newcastle United og Aston Villa niður í B-deildina.

Troy Deeney kom Watford yfir á 11. mínútu en Nathan Redmond jafnaði metin fjórum mínútum síðar. Dieumerci Mbokani kom Norwich yfir á 18. mínútu og Craig Cathcart átti svo síðasta orðið í fyrri hálfleik þegar hann setti boltann í eigið mark á 37. mínútu.

Odion Ighalo kveikti vonarneista hjá Watford þegar hann minnkaði muninn í 3-2 á 51. mínútu en sex mínútum síðar skoraði Mbokani öðru sinni og gulltryggði sigur Norwich sem kveður úrvalsdeildina eftir eins árs veru þar.

Sunderland 1-0 Everton Sunderland 2-0 Everton Sunderland 3-0 Everton



Fleiri fréttir

Sjá meira


×