Fótbolti

Stór hluti U-17 ára liðs Nígeríu of gamall

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nígería er ríkjandi heimsmeistari U-17 ára landsliða karla.
Nígería er ríkjandi heimsmeistari U-17 ára landsliða karla. vísir/getty
Furðulegt mál er komið upp í Nígeríu eftir að stór hluti U-17 ára landsliðs karla í fótbolta reyndist of gamall.

Samkvæmt frétt Africanfootball.com leiddi segulómskoðun í síðustu viku í ljós að 26 af þeim 60 leikmönnum sem voru skoðaðir væru of gamlir. Egypskur læknir framkvæmdi segulómskoðunina sem ku vera afar áreiðanleg.

Þetta setur stórt strik í reikning nígeríska liðsins sem mætir Níger í undankeppni Afríkukeppninnar á laugardaginn. Aðeins tveir úr hefðbundnu byrjunarliði Nígeríu eru á réttum aldri og þar með löglegir með liðinu.

„Þetta er skelfilegt. Næstum allir í byrjunarliðinu mega ekki spila. Þetta er alvarleg staða,“ er haft eftir ónefndum stjórnarmanni í nígeríska knattspyrnusambandinu.

Nígeríumenn, sem hafa unnið HM U-17 liða oftast allra, hafa áður verið staðnir að því að falsa fæðingardaga leikmanna. Árið 1989 voru öll unglingalið Nígeríu sett í bann eftir að upp komst fæðingadagar leikmanna voru falsaðir á Ólympíuleikunum í Seúl ári fyrr.

Árið 2010 viðurkenndi Anthony Kojo Williams, fyrrverandi formaður nígeríska knattspyrnusambandsins, að Nígería notaði eldri leikmenn á mótum yngri landsliða.

„Af hverju að leyna þessu? Þetta er satt. Við svindlum alltaf. Það er staðreynd,“ sagði Williams í Africa Kicks, heimildamynd BBC.


Tengdar fréttir

Nígeríumenn lenda rétt fyrir leik

Það er loksins farið að sjá fyrir endann á ævintýri nígeríska fótboltalandsliðsins sem er að reyna að komast til Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×