Fótbolti

Síminn hringir mikið hjá Viðari Erni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Viðar Örn hefur verið duglegur að skora í Svíþjóð.
Viðar Örn hefur verið duglegur að skora í Svíþjóð. Vísir/Getty
„Lífið leikur við mig. Síðustu dagar og vikur hafa verið alveg frábærar,“ segir framherjinn Viðar Örn Kjartansson og skal engan undra að hann sé með sól í hjarta þessar vikurnar.

Hann varð faðir í fyrsta sinn í upphafi sumars, er orðinn markahæsti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar og lið hans, Malmö, trónir þess utan á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar.

Veit ekki hvernig ég fer að þessu

„Þegar sjálfstraustið er svona mikið þá finnst manni ekkert mál að skora tvö til þrjú mörk í leik. Mörkin koma án þess að maður viti af því hreinlega. Ég veit ekki hvernig ég fer að þessu en vonandi heldur þetta áfram svona,“ segir Selfyssingurinn en hann er búinn að skora 12 mörk í 16 leikjum. Tveimur mörkum meira en næstmarkahæsti maður deildarinnar.

Það gekk þó mjög illa framan af hjá Viðari Erni sem og liðinu. Hann skoraði ekki í fyrstu fimm leikjum liðsins en hefur síðan skorað 12 mörk í 11 leikjum. Liðið hefur í kjölfarið farið á flug.

„Bæði í Kína og Noregi hóf ég tímabilin með því að skora strax mörk og komst því í gang. Það var nýtt að byrja illa og pressan var orðin gífurleg. Allir hættir að trúa á mann og farið að tala um að ég væri lélegur og svona. Svo skoraði ég þrennu og þá fóru hlutirnir að rúlla. Framherji getur verið að skora mörk í öllum deildum heimsins ef hann er með sjálfstraust. Það er fátt mikilvægara fyrir framherja,“ segir Viðar Örn en hann fékk styttra undir­búningstímabil en hann er vanur er hann kom til Svíþjóðar frá Kína þar sem hann var að spila.

Viðar Örn hefur verið sjóðheitur upp á síðkastið og skiljanlegt að fjölmörg félög sýni honum áhuga.fréttablaðið/getty
Var of þungur í upphafi

„Ég var byrjaður að spila mánuði eftir lendingu en er vanur að fá að minnsta kosti tvo mánuði. Ég held ég hafi verið of þungur er tímabilið hófst. Þá var ég 90 kíló en er núna 84. Ég var líklega að lyfta of mikið. Það munar um þessi sex kíló. Ég er líka sex kílóum léttari í höfðinu.“

Það kom mörgum á óvart, þar á meðal Viðari Erni, að hann var ekki valinn í EM-hóp Íslands. Hann lét þá leiðinlegu reynslu ekki brjóta sig niður heldur styrkja sig.

„Ég reyndi að nýta þetta svekkelsi á jákvæðan hátt. Mér finnst ég alltaf eiga skilið að vera í landsliðinu og það var auðvitað sjokk að vera ekki valinn. Ég varð samt að taka því eins og maður. Í stað þess að grenja yfir þessu ákvað ég að nýta mótlætið sem hvatningu. Ég ákvað að reyna að verða betri og finnst það hafa gengið vel,“ segir framherjinn sem getur þó ekki neitað því að það hafi verið einkar sárt að komast ekki til Frakklands.

Erfitt að fá fréttirnar

„Það var skelfilegt að komast ekki eftir að hafa verið með liðinu alla undankeppnina. Það var rosalega erfitt að fá fréttirnar. Maður gladdist auðvitað með liðinu á mótinu en langaði samt svo mikið að vera með strákunum. Ég taldi mig eiga góða möguleika á að vera valinn og var frekar hissa á að vera ekki valinn. Mér fannst ég eiga skilið að vera valinn en ber virðingu fyrir valinu. Strákarnir stóðu sig frábærlega og hefðu ekkert farið lengra með mig í liðinu.“

Pressa hjá Malmö

Selfyssingurinn hefur svo sannarlega hrist af sér svekkelsið og ef hann heldur áfram að spila svona er leiðin í landsliðið greið á nýjan leik. Hann segir að það sé aftur á móti ný reynsla að spila með besta liði Svíþjóðar.

„Það er erfiðara að spila með besta liðinu. Það fylgir miklu meiri pressa að spila hér en með Våler­enga sem er þó stórt lið. Hér þarf helst að skora í hverjum leik og væntingarnar meiri. Ég kann samt vel við þessa pressu sem maður lærir af,“ segir Viðar en það var mikil pressa á öllu liðinu framan af á meðan illa gekk.

Síminn hringir mikið

Þegar leikmenn spila vel í sterkri deild eins og í Svíþjóð þá vekja þeir athygli. Viðar neitar því ekki að hann finni fyrir áhuga.

„Ég verð að viðurkenna að síminn er búinn að hringja mikið. Ég er samt nýkominn en Malmö er vel statt félag og þarf ekkert á peningum að halda. Það er samt gott að vita af áhuga liða á manni þó að mér líði vel í Malmö,“ segir Viðar. En eru einhverjar líkur á því að hann söðli um á næstunni?

„Maður veit aldrei. Það er mikill áhugi í gangi en miðað við þann verðmiða sem er á mér þá tel ég ekki líklegt að ég fari. Það er samt í góðu lagi mín vegna því hér líður mér vel og gengur vel. Ég get ekki kvartað yfir neinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×