Erlent

Lík fyrrverandi Póllandsforseta fjarlægt og verður krufið

Atli Ísleifsson skrifar
Líkin voru flutt úr steinkistunni í Wawel-dómkirkjunni í Krakow í kvöld.
Líkin voru flutt úr steinkistunni í Wawel-dómkirkjunni í Krakow í kvöld. Vísir/EPA
Líkamsleifar Lech Kaczynski, fyrrverandi Póllandsforseta, og Maríu, eiginkonu hans, voru fjarlægðar úr kistum sínum í kvöld og verða líkin krufin í tengslum við rannsókn á flugslysinu í Smolensk árið 2010 þar sem þau hjónin fórust ásamt 92 til viðbótar.

Líkin voru flutt úr kistum sínum í Wawel-dómkirkjunni í Krakow. Saksóknarar segja frekari rannsóknir á líkunum nauðsynlegar til að tryggja að raunverulega sé um forsetahjónin fyrrverandi að ræða. Segja þeir villur hafa verið gerðar við upphaflegu réttarkrufninguna sem Rússar framkvæmdu.

Í frétt BBC kemur fram að rannsóknir sem framkvæmdar voru fyrir fjórum árum hafi leitt í ljós að lík sumra fórnarlamba hafi verið grafin í gröfum sem ekki voru rétt merktar. Saksóknarnar vonast til þess að ný krufning geti gefið vísbendingar um hvað raunverulega grandaði vélinni.

Fyrri rannsóknir hafa bent til þess að flugmönnum vélarinnar hafi orðið á mistök við lendingu. Jaroslaw Kaczynski, þáverandi forsætisráðherra og tvíburabróðir Lech, hefur þó aldrei sætt sig við niðurstöður rannsóknanna og telur að sprengjur hafi sprungið um borð í vélinni áður en hún brotlenti. Hann er núverandi leiðtogi stjórnarflokks Póllands.

Vél Lech Kaczynski hrapaði í mikilli þoku skammt frá flugbrautinni á gömlum herflugvelli í rússnesku borginni Smolensk þann 10. apríl 2010. Forsetinn var þá ásamt öðrum háttsettum mönnum innan pólska stjórnkerfisins á leið til athafnar til að minnast þess að sjötíu ár væru liðin frá fjöldamorðinu í Katyn þar sem sovéskir hermenn bönuðu um 20 þúsund Pólverjum.

Þessar nýju rannsóknir eru í meira lagi umdeildar og hafa aðstandendur sumra fórnarlamba ekki gefið leyfi fyrir því að líkamsleifarnar séu grafnar upp. Kannanir benda til að um fjórðungur Pólverja telji að Kaczynski hafi verið ráðinn af dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×