Erlent

Líkur á að loks takist að kjósa forseta í 46. tilraun

Atli Ísleifsson skrifar
Michel Aoun.
Michel Aoun. Vísir/AFP
Búist er við að líbanska þinginu takist að ná saman um kjör nýs forseta landsins í dag. 45 sinnum hafa verið greidd atkvæði um nýjan forseta án niðurstöðu.

Í frétt BBC segir að fastlega sé gert ráð fyrir að fyrrverandi hershöfðinn Michel Aoun verði kjörinn forseti en landið hefur verið forsetalaust frá maí 2014.

Samkvæmt samkomulagi um valdaskiptingu í landinu skal forseti landsins vera kristinn, forsætisráðherrann súnnímúslimi og forseti þingsins sjíamúslimi.

Hinn 81 árs gamli Aoun hefur nú tekist að tryggja sér stuðning fjölda pólitískra andstæðinga sinna. Þannig hafa Hizbollah-samtökin stutt Aoun allt frá 2006.

Framtíðarhreyfingin, flokkur súnnímúslima, höfðu lengi komið í veg fyrir kjör Aoun, en samkomulag náðist fyrr í mánuðinum sem gerir ráð fyrir að leiðtogi Framtíðarhreyfingarinnar, Saad Hariri, verði næsti forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×