Erlent

Moldóvar kusu Rússland fram yfir ESB

Atli ísleifsson skrifar
Sósíalistinn Igor Dodon.
Sósíalistinn Igor Dodon. Vísir/AFP
Moldóvar virðast hafa valið Rússland fram fyrir ESB í þegar þeir gengu í fyrsta sinn í tuttugu ár að kjörborðinu til að kjósa sér nýjan forseta beinni kosningu.

Sósíalistinn Igor Dodon, sem er hlynntur nánari tengslum landsins við Rússland, hlaut 48,5 prósent atkvæða, en Maia Sandu, sem vill auka tengsl landsins og ESB, 38,2 prósent.

Þörf verður á annarri umferð þar sem kosið verður milli tveggja efstu, en frambjóðandi þarf 51 prósent atkvæða til að verða kjörinn forseti.

Kjörsóknin var dræm, einungis um 48 prósent, og hefur Sandu sagt að ungu fólki hafi verið torveldað að kjósa, án þess að útskýra það neitt nánar.

Allt frá árinu 1996 hefur forseti verið kjörinn af þingi landsins.

Seinni umferð kosninganna fer fram 13. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×