Erlent

Flóttamenn sendir aftur til Tyrklands

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Flóttamannabörn að leik í búðum í Idomeni í norðanverðu Grikklandi, steinsnar frá landamærunum að Makedóníu í gær. Hömlur sem settar hafa verið á för flótta- og förufólks svokallaða "Balkan-leið“, sem flestir hafa farið á leið sinni frá Miðausturlöndum til Evrópusambandslanda, hafa orðið til þess að þúsundir flóttafólks eru fastar í Grikklandi.
Flóttamannabörn að leik í búðum í Idomeni í norðanverðu Grikklandi, steinsnar frá landamærunum að Makedóníu í gær. Hömlur sem settar hafa verið á för flótta- og förufólks svokallaða "Balkan-leið“, sem flestir hafa farið á leið sinni frá Miðausturlöndum til Evrópusambandslanda, hafa orðið til þess að þúsundir flóttafólks eru fastar í Grikklandi. Fréttablaðið/EPA
Flóttafólk sem kemur til Grikklands eftir miðnætti á morgun, sunnudag, verður sent aftur til Tyrklands verði beiðni þess um hæli hafnað. Þetta kemur fram í drögum að samkomulagi Evrópusambandsríkjanna og Tyrklands sem gengið var frá í Brussel í gær. Á móti taka ríki ESB á sig að taka á móti þúsundum flóttafólks frá Tyrklandi.

Þá gerir samkomulagið Grikkjum kleift að senda til Tyrklands flótta- og förufólk sem er án skilríkja. Stórir hópar flóttafólks hafa safnast upp þar sem för þeirra hefur verið stöðvuð á landamærum Grikklands og Makedóníu og hírist þar við rýran kost. Samkomulaginu er einnig ætlað að taka á þessum vanda að hluta.

Þá fylgir samkomulaginu einnig fjárstuðningur ESB til Tyrklands vegna flóttamannamála og aukinn kraftur verður settur í aðildarviðræður Tyrklands að ESB.

Dalia Grybauskaite, forseti Litháens. Hún hefur sagt áætlun um að snúa flóttafólki aftur til Tyrklands á „ytri mörkum alþjóðalaga“ og erfiða í framkvæmd.Fréttablaðið/EPA
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, kynntu samkomulagið á blaðamannafundi í höfuðstöðvum ESB í Brussel seinni partinn í gær. Um er að ræða niðurstöðu tveggja daga leiðtogafundar Evrópusambandsríkjanna 28 og Davutoglu sem lauk í gær. Samkomulagið er umdeilt og var harðlega mótmælt af mannréttindasamtökum sem sögðu það brjóta alþjóðalög um meðferð flóttafólks, á meðan það var í vinnslu.

Á meðan á fundunum stóð var einnig misjafnt hljóð í leiðtogum aðildarríkjanna, svo sem í Daliu Grybauskaite, forseta Litháens, en breska ríkisútvarpið, BBC, hafði eftir henni viðvörun um að áætlun um að snúa fólki aftur til Tyrklands væri „á ytri mörkum alþjóðalaga“ og væri erfið í framkvæmd.

Juncker tilnefndi í gær Maarten Verwey sem samhæfingarstjóra ESB við framkvæmd samkomulags ESB og Tyrklands, að því er fram kemur í tilkynningu sambandsins. Þar kemur líka fram að aðildarríkin skuldbindi sig til að útvega Grikkjum með skömmum fyrirvara nauðsynleg úrræði, þar á meðal landamæraverði, sérfræðinga í málefnum flóttafólks og túlka.

Greinin/fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×