Málflutningur í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings fyrir Hæstarétti hófst klukkan átta í morgun. Um er að ræða eitt umfangsmesta efnahagsbrotamál sem komið hefur til kasta dómstóla hér á landi en alls eru níu manns ákærðir í málinu, ýmist fyrir markaðsmisnotkun og/eða umboðssvik á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 8. október 2008.
Allir sakborningar eru í sal 1 í Hæstarétti og er því þétt setið á bekkjum dómsalarins.
Á meðal ákærðu eru æðstu stjórnendur Kaupþings fyrir hrun, þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri bankans, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, og Ingólfur Helgason sem var forstjóri bankans á Íslandi.
Þremenningarnir hlutu allir óskilorðsbundna dóma í Héraðsdómi Reykjavíkur í júní 2015. Þá hlutu þeir Einar Pálmi Sigmundsson, Pétur Kristinn Guðmarsson og Birnir Sær Björnsson skilorðsbundna dóma en Bjarki Dieogo var dæmdur í fangelsi. Björk Þórarinsdóttir var sýknuð í málinu. Ákveðnum ákæruliðum á hendur Magnúsi Guðmundssyni, sem var forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, var vísað frá, en hann var sýknaður af þeim ákæruliðum sem stóðu eftir.
Sjá einnig: Hreiðar, Sigurður og Ingólfur dæmdir
Meint markaðsmisnotkun í málinu snýst annars vegar um mikil kaup eigin viðskipta Kaupþings á hlutabréfum í bankanum og hins vegar um nokkrar stórar sölur á hlutabréfum í Kaupþingi til þriggja eignarhaldsfélaga, Holt, Mata og Desulo.
Að mati ákæruvaldsins voru mikil kaup eigin viðskipta til þess fallin að hægja á eða koma í veg fyrir lækkun hlutabréfaverðs í Kaupþingi. Bankinn þurfti síðan að selja bréfin því stjórnendur vildu ekki fara yfir flöggunarmörk sem voru 5 prósent. Það voru því fundnir álitlegir kaupendur að bréfunum og þeim komið út af veltubók bankans. Telur saksóknari því að viðskiptin hafi byggt á blekkingum og sýndarmennsku, þar sem ekki hafi verið raunverulegar viðskiptalegar forsendur fyrir þeim.
Á söluhliðinni var svo einnig ákært fyrir lánveitingar bankans vegna kaupanna sem voru að fullu fjármögnuð af Kaupþingi sem tók svo veð í eigin bréfum fyrir lánunum. Vill saksóknari meina að lánveitingarnar séu umboðssvik.
Allir sakborningar í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings mættir í Hæstarétt

Tengdar fréttir

Hver var dæmdur fyrir hvað? Sakfellt fyrir markaðsmisnotkun en enginn dæmdur fyrir milljarða lán til Mata
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings er tæpar 100 blaðsíður. Vísir fór yfir dóminn og bar hann saman við ákæruna í málinu sem var allítarleg.

Hreiðar, Sigurður og Ingólfur dæmdir
Dómur féll í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings í dag.

Markaðsmisnotkunarmál Kaupþings fer fyrir Hæstarétt
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, hafa báðir áfrýjað dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í markaðsmisnotkunarmálinu svokallaða.