Erlent

Skoða skráningu flóttafólks

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmenn hjálparsamtaka í New York eru æfir vegna tillögunnar.
Starfsmenn hjálparsamtaka í New York eru æfir vegna tillögunnar. Vísir/Getty
Tillögur um skráningu flóttafólks liggja nú fyrir yfirvöldum tveggja ólíkra ríkja Bandaríkjanna. Þingmenn í New York og Suður-Karólínu skoða nú hvort skilyrða eigi flóttafólk þar til að skrá sig hjá yfirvöldum. Samkvæmt tillögunum væri hægt að draga meðmælendur flóttafólks til ábyrgðar ef flóttamaður fremdi hryðjuverk.

Þingmenn í Suður-Karólínu segjast hafa meiri áhyggjur af hryðjuverkum en hvort tillagan sé í samræmi við stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Tæplega 850 flóttamenn frá Evrópu, Afríku og Mið-Austurlöndum hafa fengið hæli í Suður-Karólínu frá 2010. Þar af 87 síðasta sumar. Stuðningsmenn frumvarpsins þar segja að ef einungis einn þeirra myndi fremja hryðjuverk gætu afleiðingarnar verið hrikalegar.

Andstæðingar tillögunnar segja hana þó ganga gegn gildum Suður-Karólínu eins og kristinnar kurteisi og nágrannakærleik. „Ég vil að við höldum áfram að vera þau sem við höfum alltaf verið, fólk sem tekur vel á móti öðrum,“ segir þingmaðurinn Kevin Johnson.

Flutningsmaður frumvarpsins, Kevin Bryant, segir að í stað þess að taka á móti flóttafólki ættu íbúar Suður-Karólínu að sína kærleik sinn með því að veita fé til hjálparstofnana.

„Af hverju ættum við að flytja einn flóttamann hingað, þegar við getum hjálpað tíu á heimaslóðum þeirra fyrir sömu upphæð?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×