Erlent

62 fórust í flugslysi í Rússlandi

Una Sighvatsdóttir skrifar
Óljóst er um orsök slyssins en afar slæmt skyggni og sterkir vindar voru á svæðinu.
Óljóst er um orsök slyssins en afar slæmt skyggni og sterkir vindar voru á svæðinu. Vísir/AFP
Tugir létu lífið þegar farþegaþota brotlendi í borginni Rostov-on-Don í suðurhluta Rússlands í nótt. Óljóst er um orsök slyssins en afar slæmt skyggni og sterkir vindar voru á svæðinu, að því er fram kemur á vef BBC.

Eftir að hafa hringsólað yfir flugvellinum í um tvær klukkustundir gerði flugmaðurinn tilraun til lendingar á fjórða tímanum í nótt að staðartíma en vélin endaði um 250 metrum utan flugbrautar.

Um 700 björgunarmenn voru ræstir út og hefur flugvellinum verið lokað meðan frumrannsókn stendur yfir og áætluðum flugleiðum vísað á aðra velli.

Á upptöku úr öryggismyndavél má sjá mikinn blossa við brotlendinguna og á vef rannsóknarnefndar flugslysa í Rússlandi segir að skrokkur vélarinnar hafi splundrast. Flugritans er nú leitað.

Vélin var af gerðinni Boeing 737-800 frá lággjaldaflugfélaginu FlyDubai. Sjö voru í áhöfn auk 55 farþega og létu allir lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×