Erlent

Einn látinn eftir skotárásir í Malmö

Díana Sjöfn Jóhannsdóttir skrifar
Lögreglan rannsakar málin sem aðskilin. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Lögreglan rannsakar málin sem aðskilin. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/AFP
Ungur maður lést eftir skotárás í suðurhluta Malmö í Svíþjóð í gærkvöldi en tilkynnt var um tvær árásir í borginni.

Maðurinn var fluttur á sjúkrahús en lést síðar um kvöldið af völdum sára sinna. Í frétt SVT kemur fram að maðurinn hafi verið á tvítugsaldri og búið í Malmö. Fyrr um kvöldið hafði verið tilkynnt um aðra skotárás í nágrenninu en árásirnir tvær áttu sér stað með einungis nítján mínútna millibili. Fórnarlamb fyrri skotárásinnar er í aðhlynningu á sjúkrahúsi í Malmö.

Tilkynning um fyrstu skotárásina kom inn til lögreglu klukkan 21:42 að sænskum tíma, þar sem tilkynnt var um særðan mann á Fosievägen í suðurhluta borgarinnar. Maðurinn, sem var á sautjánda ári, var fluttur á sjúkrahús með skotsár og voru tæknimenn lögreglu kallaðir á vettvang til rannsóknar.

Klukkan 22:01 kom svo tilkynning um skotbardaga á Annenlundsgötu í Rosengård hverfi, í einungis þriggja kílómetra fjarlægð frá fyrri árásinni, þar sem skotið hafi verið á tvítugan mann og félaga hans.

Þegar lögregla kom á síðari vettvang voru gerðar endurlífgunartilraunir, en maðurinn var úrskurðaður látinn þegar hann hafði verið fluttir á sjúkrahús. Maðurinn og félagar hans hafa allir komist í kast við lögin áður.

 Lögregla hefur handtekið þrjá menn sem hún telur tengjast fyrri árásinni á Fosievägen. Samkvæmt lögreglustjóranum Magnus Lefévre rannsakar lögreglan málin sem aðskilin þar sem ekkert bendir til að málin tengist á nokkurn hátt þrátt fyrir tímasetningarnar.

Enginn hefur enn verið handtekinn vegna síðari árásarinnar þar sem maðurinn lést. Ekki fæst upp gefið hvort einhverjir liggi undir grun á þessu stigi málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×