Innlent

Hefur greitt hálfa milljón vegna krabbameinsmeðferðar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Heilbrigðisútgjöld heimilanna hafa þannig vaxið mun hraðar en útgjöld hins opnbera en um kostnaðarþátttökuna er fjallað í nýrri skýrslu ASÍ.
Heilbrigðisútgjöld heimilanna hafa þannig vaxið mun hraðar en útgjöld hins opnbera en um kostnaðarþátttökuna er fjallað í nýrri skýrslu ASÍ. Vísir/Vilhelm
Heimilin í landinu standa í dag undir um 20 prósentum af öllum heilbrigðisútgjöldum með beinni greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu og hefur kostnaðarþátttaka sjúklinga nær tvöfaldast á síðustu 30 árum. Heilbrigðisútgjöld heimilanna hafa þannig vaxið mun hraðar en útgjöld hins opnbera en um kostnaðarþátttökuna er fjallað í nýrri skýrslu ASÍ.

Í skýrslunni eru tekin raunveruleg dæmi um kostnaðarþátttöku sjúklinga á síðustu árum. Þannig er sagt frá 35 ára konu sem fór í aðgerð vegna vandamála í öxl í upphafi seinasta árs. Aðgerðin var framkvæmd af bæklunarskurðlækni ásamt svæfingarlækni á einkastofu og var myndgreining gerði bæði fyrir og eftir aðgerð.

 

Í kjölfar aðgerðarinnar var konunni síðan vísað í sjúkraþjálfun en bein útgjöld konunnar vegna aðgerðarinnar námu samtals 156.700 krónum. Lækniskostnaður var 57.000 krónur, myndgreiningin kostaði 267.00 krónur, 13 skipti í sjúkraþjálfun kostuðu 66.000 krónur og lyf 7000 krónur.

142.000 krónur í komugjöld og rannsóknir á einu ári

Þá er tekið annað dæmi af konu sem greindist með illvígt krabbamein árið 2013 en langri meðferð hennar við meininu er ekki lokið. Á seinustu þremur árum hefur hún greitt um hálfa milljón vegna krabbameinsmeðferðarinnar en hún hefur að jafnaði þurft lyfjagjafir og rannsóknir 3-4 sinnum í mánuði síðan hún greindist.

Á árinu 2013 greiddi konan ríflega 142.000 krónur í komugjöld og rannsóknir. Á árinu 2014 námu bein útgjöld hennar vegna þessara þátta um 154.000 krónum.

Í september það ár er veikindaréttur hjá atvinnurekanda, réttindi úr sjúkrasjóði og réttur til sjúkradagpeninga hjá Sjúkratryggingum var fullnýttur fékk konan úrskurðaðan endurhæfingarlífeyri og fór þá að greiða samkvæmt gjaldskrá örorkulífeyrisþega. Á seinasta ári greiddi konan um 61.000 krónur vegna komugjalda og rannsókna en að auki hefur hún greitt um 50.000 krónur á ári í lyfjakostnað.

3 prósent Íslendinga segjast ekki hafa sótt sér nauðsynlega læknisþjónustu

Eftir því sem bein kostnaðarþátttaka sjúklinga verður meiri „fylgir sú hætta að kostnaðurinn verði hindrun í aðgengi að nauðsynlegri þjónustu fyrir ákveðna hópa sem eykur misskiptingu, bæði fjárhagslega, félagslega og heilsufarslega,“ eins og segir í inngangi skýrslu ASÍ.

Vísbendingar um þetta sjáist í tölum um fjölda þeirra sem sækja sér ekki nauðsynlega læknisþjónustu vegna kostnaðar en samkvæmt rannsókn sem Eurostat gerði er mun stærri hluti af fólki hér á landi sem sækir sér ekki heilbrigðisþjónustu vegna þess hvað það kostar sé það borið saman við nágrannalönd okkar.

„Samkvæmt nýjustu tölum eru um 3% Íslendinga sem segjast ekki hafa sótt sér nauðsynlega læknisþjónustu vegna kostnaðar en innan við 0,5% á hinum Norðurlöndunum.

Það vekur líka athygli að mikill munur er á svörum eftir tekjum en meðal tekjulægsta hópsins hér á landi eru um 6% sem hafa ekki sótt sér læknisþjónustu vegna kostnaðar en 0,6% meðal þeirra tekjuhæstu. Þegar skoðaðar eru tölur um tannlæknaþjónustu er myndin enn verri en nærri fimmtungur tekjulægsta hópsins hér á landi segist ekki hafa sótt sér tannlæknaþjónustu vegna kostnaðar,“ segir í skýrslu ASÍ en hana má nálgast í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Enn mikið álag á öllum deildum Landspítalans

Einkum á þetta við um þá sjúklinga sem hafa fengið færni-og heilsumat og svo þá sem bíða endurhæfingar en Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, fer yfir þessa stöðu í pistli sem hann birti á vef spítalans í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×