Skoðun

Andi þjóðminjavörslu

Sigurjón Baldur Hafsteinsson skrifar
Nýverið lagði forsætisráðherra fram frumvarp á Alþingi þess efnis að sameina ætti tvær stofnanir á sviði þjóðminjavörslu, Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun Íslands. Nýja stofnunin á að bera heitið Þjóðminjastofnun. Þjóðminjavörður hefur stigið fram sem talsmaður breytinganna, en forstöðumaður Minjastofnunar hefur gagnrýnt hugmyndina. Tveir aðilar sem þekkja til málaflokksins hafa skrifað opinberlega greinar þar sem þeir lýsa vantrú sinni á tillögurnar. Fagfélög sem standa að sérsviðum þessara tveggja stofnana hafa lýst yfir efasemdum um sameininguna og árangurinn af henni.

Svo undarlega vill til að forsætisráðherra, þjóðminjavörður og forstöðumaður Minjastofnunar hafa þagað þunnu hljóði í kjölfar gagnrýninnar. Og það sem meira er – komist upp með það. Enginn fjölmiðill hefur gert tilraun til þess að rýna í tillögurnar á grundvelli gagnrýni eða yfirlýsinga. Segja má að þetta sé andi þjóðminjavörslu í landinu á þessum tímapunkti, ofríki og sinnuleysi.

En af hverju ofríki? Hvað er það sem gefur tilefni til þess að grípa til svo sterks orðs? Tillögur forsætisráðherra og fylgismanna hans vinna gegn því starfi sem ríkisstjórnir síðastliðinna tuttugu ára hafa verið að gera. En lagabreytingar og stofnanagerð hafa verið tilraunir til þess að treysta lýðræðisleg vinnubrögð og styrkja faglegar umfjallanir um málaflokka á sviði þjóðminjavörslu. Starfsemi Þjóðminjasafnsins Íslands var til dæmis skipt upp í þrjár stofnanir (Þjóðminjasafn, Fornleifavernd, Húsafriðunarnefnd). Með tillögum forsætisráðherra er verið að brjóta á bak aftur þessa þróun og í raun verið að hverfa aftur til þess tíma sem samþjöppun á valdi tíðkaðist í málaflokkunum.

Vegið að sérhæfingu

Margt hefur gerst á þeim tíma sem liðið hefur frá því að þessi vegferð hófst um aldamótin. Safnalög hafa verið sett og háskólamenntun í fornleifafræði og safna­fræði hefur vaxið fiskur um hrygg, sem hefur aukið faglega rýni í málaflokknum. Að auki hafa ofantaldar þrjár nýjar stofnanir verið að byggja upp faglegri vinnubrögð sem taka mið af alþjóðlegum og samfélagslegum breytingum. Með sameiningartillögunum er vegið að þessari sérhæfingu, faglega metnaði og kröfum um samstarfshæfni stjórnenda þeirra.

En sinnuleysið, í hverju felst það? Það sætir furðu að fjölmiðlar sýna málinu engan áhuga. Sem út af fyrir sig er kannski vísbending um að fólki er slétt sama um menninguna í landinu. En kannski á það bara við um fólk sem vinnur á fjölmiðlum, sem ég held reyndar að sé málið. Sagan, fortíðin og aðferðir þess opinbera í þeim efnum skipta fólk máli.

Spyrjið hvaða Íslending sem er, ef þið nennið. Fjölmiðlar eiga að vakna af rotinu og fara að fjalla um þessi mál af jafn mikilli áfergju og þeir gera ef einhver ropar á Alþingi. Þeir eiga að fara að spyrja spurninga á borð við: er þessum málum betur borgið með tillögunum? Hvaða mál eru það annars sem eru í húfi í ljósi tillagnanna? Er verið að veita ákveðnum aðilum meiri völd en æskilegt er? Er verið að draga úr krafti þess sem þegar er til staðar? Er sameining æskileg út frá faglegum sjónarmiðum þeirra sem að málaflokknum koma? Hvaða rök eru á móti slíkum tillögum? Hvernig horfa tillögurnar við í alþjóðlegu samhengi? Þjóna hugmyndirnar hagsmunum almennings í landinu? Hvað styður það? Af hverju flýtir við að gera róttæka kerfisbreytingu?

Sameiningartillögurnar fjalla ekki um svör við þessum spurningum. Fjölmiðlar fjalla ekki um þessar tillögur. Þetta er andi þjóðminjavörslu, sem hafa skal verulegar áhyggjur af.




Skoðun

Sjá meira


×