Erlent

„Við megum ekki sætta okkur við blóðbaðið“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Barack Obama á fundinum í gær þar sem hann kynnti aðgerðir til að takmarka byssueign í Bandaríkjunum
Barack Obama á fundinum í gær þar sem hann kynnti aðgerðir til að takmarka byssueign í Bandaríkjunum vísir/getty
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hyggst skikka þá sem selja byssur á netinu og á byssusýningum sem haldnar eru án tilskilinna leyfa til að kanna bakgrunn þeirra sem kaupa af þeim skotvopn.

Forsetinn greindi frá þessu í gær en aðgerðirnar eru liður í þeirri viðleitni hans að koma böndum á byssueign Bandaríkjamanna en skotárásir í landinu hafa verið daglegt brauð síðustu ár.

Þessar nýju reglur munu ekki fara fyrir Bandaríkjaþing þar sem litlar sem engar líkur eru á því að þingið muni samþykkja eitthvað sem felur í sér að erfiðara verði fyrir landsmenn að eignast byssur, þar sem hagsmunasamtök byssueigenda hafa mikil ítök á bandaríska þinginu.

„Hagsmunasamtökin geta haldið þinginu í gíslingu en þau mega ekki halda þjóðinni í gíslingu. Við megum ekki sætta okkur við blóðbaðið,“ sagði Obama á Twitter í gær.

Með nýjum reglum varðandi byssusölu á netinu og á byssusýningum freistar forsetinn að loka gati í regluverkinu sem yfirvöld hafa lengi vitað af. Nú eiga hins vegar sömu reglur að gilda fyrir alla sem selja byssur, hvort sem það er út úr búð eða í gegnum netið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×