Erlent

Reisir risavaxna styttu af Maó í kínverskri sveit

Atli Ísleifsson skrifar
Styttan er engin smásmíði.
Styttan er engin smásmíði. Vísir/AFP
Verið er að reisa 37 metra háa gulllitaða styttu af Maó Zedong, fyrrverandi leiðtoga Kína, í Tongxu í hinu kínverska Henan-héraði.

Viðskiptamaður í Henan-héraði hefur varið um þremur milljónum yuan, um 60 milljónir króna, til að láta styttuna verða að veruleika. Íbúar í héraðinu hafa einnig lagt fé til verksins.

Í frétt BBC kemur fram að milljónir íbúa í Henan-héraði hafi látið lífið vegna þurrka á sjötta áratugnum sem raktir eru til Maó og stefnu hans.

Margir hafa gagnrýnt smíðina og sakað aðstandendur verkefnisins um tillitsleysi og peningasóun.

Þrátt fyrir að bera ábyrgð á dauða fjölda Kínverja eru margir sem enn halda minningu Maó á lofti. Einn þeirra er Xi Jinping Kínaforseti sem segir Maó hafa verið mikilmenni.

Xi hefur sjálfur reynt að auka miðstýringu í landinu og vísað til arfleifðar Maó. Hann viðurkennir þó að Maó hafi gert „mistök“ í stjórnartíð sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×