Erlent

Spennuþrunginn fundur Pólverja í Brussel

Atli Ísleifsson skrifar
Andrzej Duda og Donald Tusk fyrir fundinn í morgun.
Andrzej Duda og Donald Tusk fyrir fundinn í morgun. Vísir/AFP
Spennan var mikil fyrir fund Andrzej Duda Póllandsforseta og Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, í Brussel í morgun.

Samband Póllands og sambandsins hefur versnað til muna eftir að Lög og réttlæti, flokkur Duda, vann sigur í pólsku þingkosningunum í haust.

Ný ríkisstjórn Póllands hefur sætt mikilli gagnrýni frá því að hún tók við völdum um miðjan nóvember. Stjórnin hefur meðal annars afturkallað skipanir fyrri ríkisstjórnar í stjórnlagadómstól landsins og tekið fjölda umdeildra ákvarðana á fyrstu vikum valdatíðar sinnar, þeirra á meðal setningu umdeildra fjölmiðlalaga sem snúa að afskipti stjórnarinnar að ríkisreknum fjölmiðlum.

Sjá einnig: Eiríkur Bergmann: „Pólland færist þá nær því að verða lýðræðislíki fremur en eiginlegt lýðræðisríki“

Framkvæmdastjórn sambandsins greindi frá því í síðustu viku að hún hygðist hleypa af stokkunum sérstakri rannsókn á hvort nýleg pólsk lög stangist á við reglur sambandsins um lýðræði. Er þetta í fyrsta sinn sem sambandið ræðst í slíka rannsókn.

Tusk, sem sjálfur gegndi embætti forsætisráðherra Póllands áður en hann tók við embætti forseta leiðtogaráðsins, segist þó efins um hvort rétt sé að ESB rannsaki Pólland sérstaklega. „Ég tel það ekki góða hugmynd að leiðtogaráðið ræði ástandið í Póllandi.“

Þeir Duda og Tusk sögðu að fundi loknum að „Pólland og ESB væru sammála“ og að fundurinn hafi verið góður.

„Ég vil leggja áherslu á að fundur okkar, augliti til auglitis, sýni fram á að hagsmunir Póllands og ESB séu þeir sömu. Pólland á enga óvini innan ESB. Allt frá því að Pólland gerðist aðili að ESB hefur landið verið mikilvægt fyrir ESB og öfugt,“ sagði Tusk.

Duda sagðist sjálfur vilja róa umræðuna. „Ég vil að við eigum samræður sem byggja á staðreyndum.“


Tengdar fréttir

Kaczynski fetar í fótspor Orbans

Ný stjórn íhaldsmanna í Póllandi lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum að grafa undan stjórnlagadómstól landsins og herða tökin á ríkisfjölmiðlum. Stjórnin í Ungverjalandi fór svipaða leið fyrir nokkrum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×