Erlent

Múslimar í Berlín breiða út friðarboðskap í kjölfar árásarinnar

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Fólk íklætt stuttermabolum sem múslimar réttu gangandi vegfarendum á minningarathöfn í Berlín í gær.
Fólk íklætt stuttermabolum sem múslimar réttu gangandi vegfarendum á minningarathöfn í Berlín í gær. vísir/epa
Múslimar sem búsettir eru í Berlín söfnuðust saman á götum úti til þess að breiða út boðskap friðar við minningarathöfn sem haldin var í gærkvöldi í kjölfar árásanna á mánudag.

Þýska lögreglan leitar nú árásarmannsins en talið er að hann sé 23 ára gamall maður frá Túnis.

Vísir greindi frá því í kvöld að maðurinn, Anis Amri, hafi verið undir eftirliti þýskra stjórnvalda frá því í janúar á þessu ári vegna gruns um að hafa reynt að fjármagna kaup á sjálfvirkum skotvopnum með ráni.

Kveikt var á kertum á vettvangi árásarinnar á Breidscheidplatz-torgi.vísir/epa
Múslimar í Berlín berjast fyrir friði

Múslimarnir sem komu saman í Berlín í gærkvöldi réttu gangandi vegfarendum stuttermaboli með áletruninni „Ást fyrir alla, hatur fyrir engan“ og sögðu í samtali við fjölmiðla að þeir ætluðu sér að koma í veg fyrir að ódæðisverkin myndu sundra Berlínarborg enn frekar.

„Við erum hér saman komin í kvöld til þess að sýna andstöðu okkar í garð hryðjuverka,“ sagði Muhammad Asif Sadiq, Þjóðverji af pakistönskum uppruna, í viðtali við The Independent í gær.

„Múslimar sem búa hér berjast fyrir friði og tryggð. Þeir elska landið sitt. Við erum hér sem íbúar Berlínar og við elskum að búa hér,“ sagði hann. Í viðtalinu sagði Sadiq jafnframt að viðhorf Þjóðverja í garð útlendinga hefði breyst til hins verra á síðastliðnum árum.

Minntust fórnarlamba árásarinnar

Berlínarbúar fjölmenntu á minningarathöfn í gærkvöldi sem fór fram á vettvangi árásarinnar á Breitscheidplatz-torgi í miðborg Berlínar.

Kveikt var á kertum til þess að minnast fórnarlambanna tólf sem létust í árásinni þeirra fjölmörgu sem særðust en samkvæmt fjölmiðlum hið ytra eru fjórtán fórnarlömb enn þungt haldin. 


Tengdar fréttir

Hryllingur á jólamarkaði í Berlín

Minnst níu létust þegar flutningabíll ók á hóp fólks á jólamarkaði í Berlín í gær. Íslendingar í borginni segja fólk í sjokki vegna atviksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×