Innlent

Daginn tekur að lengja á ný

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vetrarsólstöður eru í dag svo eftir morgundaginn tekur daginn að lengja á ný.
Vetrarsólstöður eru í dag svo eftir morgundaginn tekur daginn að lengja á ný. vísir/vilhelm
Vetrarsólstöður eru klukkan 10:44 í dag á norðurhveli jarðar sem þýðir að eftir morgundaginn tekur daginn að lengja. Samkvæmt vef veðurstofunnar rís sólin klukkan 11:22 í Reykjavík, hádegi verður klukkan 13:26 og sólin sest svo klukkan 15:31.

Sólarinnar nýtur því við aðeins í rúma fjóra tíma í dag í Reykjavík en aðeins í tæpa þrjá tíma á Akureyri þar sem það er mismunandi eftir því hvar maður er á landinu hversu lengi sólin er á loftinu.

„Þetta gerist tiltölulega hægt. Fyrst lengist dagurinn um nokkrar sekúndur og síðan um nokkrar mínútur þannig að fólk tekur ekki alveg eftir muninum strax. Á gamlársdag verður sólargangstíminn til að mynda orðinn þremur mínútum lengri en svo strax í janúar ætti fólk að vera farið að taka eftir því að dagurinn er orðinn lengri,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins í samtali við Vísi.

Ástæðan fyrir þessu er möndulhalli jarðar og sporöskjulaga braut Jarðar um sólina en þetta veldur því að sólin færist mishratt yfir himininn, að því er segir í færslu á Facebook-síðu Stjörnufræðivefsins.

„Jörðin er ekki upprétt í geimnum heldur hallar hún pínulítið, svona eins og skopparakringla og fyrir vikið þá hallar hvelunum sínum að og frá sólinni til skiptis þannig að núna þegar við fögnum vetrarsólstöðum þá eru sumarsólstöður á suðurhveli jarðar og fólkið fagnar þar því,“ segir Sævar.  

Við vetrarsólstöður er Jörðin nálægt því að vera næst sólinni en þá ferðast hún örlítið hraðar um sólina en í lok júní, við sumarsólstöður, þegar Jörðin er fjærst sólu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×