Skoðun

Frumkvöðlar í matvælum

Ingi Björn Sigurðsson skrifar
Matvælageirinn hefur verið að ganga í gegnum miklar breytingar á síðustu misserum. Stóru matvælafyrirtækin hafa verið að tapa markaðshlutdeild á meðan minni aðilar hafa verið að komast inn á markaðinn fyrr en áður. Neysla á vörum eins og Coca Cola hefur til að mynda ekki verið minni síðan 1985, svo dæmi sé tekin.

Ástæðan fyrir þessu eru neyslubreytingar, ásamt því þá hefur aldrei verið auðveldara fyrir ný vörumerki að hasla sér völl í matvælageiranum.

Síðustu áratugi hefur verið lögð mest áhersla á að framleiða mat með hámarks rekstararhagkvæmni. En nýjar kynslóðir leggja meira upp úr gæðum, sjálfbærni og upplýsingum, neytendur eru að verða meira og meira meðvitaðir um hvað þeir kaupa.

Þessar breytingar þýða gríðarleg tækifæri fyrir matvælafrumkvöðla á Íslandi. Við Íslendingar erum matvælaþjóð.

Það er ekki bara að við séum að selja fisk og sjávarafurðir heldur hafa til að mynda opnast markaðir fyrir skyr og fleiri afurðir. En samkvæmt fréttum nýlega var markaður fyrir skyr metinn á átta milljarða Bandaríkjadala.

Þó að matvæli séu okkar helsta útflutningsvara, hefur innanlandsmarkaður fyrir matvæli vaxið gríðarlega í takt við fjölgun ferðamanna á Íslandi. Auk þess hefur virði vörumerkisins Ísland verið að aukast gríðarlega á síðustu árum með tilkomu fleiri ferðamanna og aukinni vitneskju um landið.

Það eru ótrúleg tækifæri fyrir okkur á sviði matvæla; tækifæri sem segja má að útlendingar hafi stundum komið auga á fyrr en við sjálf. Með okkar litlu matvælafyrirtæki og hreinu afurðir eigum við að efla ímynd okkar sem fyrirmyndarþjóð í matvælaframleiðslu.

Á næstum misserum verður haldinn viðburður sem heitir LYST, sem undirritaður stendur fyrir ásamt Íslenska sjávarklasanum. Þar verður fjallað um þau gríðarlegu tækifæri sem matvælafrumkvöðlar standa frammi fyrir. Við munum leggja sérstaka áherslu á sérstöðu íslenskra matvæla og viðskipti með matvæli. Á LYST munum við fá til liðs við okkur einvalalið sérfræðinga í viðskiptum með matvæli.

Samhliða LYST munum við halda FoodHackathon þar sem við ætlum örva nýsköpun í matvælageiranum. Hugtakið Hackathon hefur hingað til verið tengt við tæknigeirann, en það er samsett orð úr orðunum, að hakka og marathon. Á slíkum viðburði kemur fólk saman með það að markmiði að leysa tiltekin vandamál á fyrirfram ákveðnum tíma. Okkar markmið er að skapa nýjar lausnir og búa til fleiri matvælafrumkvöðla.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×