Innlent

Fær dóm eftir að úlfar drápu starfsmann dýragarðs í Svíþjóð

Atli Ísleifsson skrifar
Úlfagryfjan í Kolmården.
Úlfagryfjan í Kolmården. Vísir/AFP
Dómstóll í Svíþjóð dæmdi í dag yfirmann í dýragarðinum Kolmården sekan um að hafa borið ábyrgð á dauða starfsmanns garðsins eftir að úlfar réðust á hann með þeim afleiðingum að hann dó.

Í frétt SVT segir að yfirmaðurinn hafi hlotið skilorðsbundinn dóm, auk þess að dýragarðurinn er dæmdur til að greiða 3,5 milljónir sænskra króna, um 43 milljónir króna, í bætur þar sem ekki hafa gerðir nægar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að atvik sem þetta geti endurtekið sig.

Dómari telur að öryggi starfsmanna hafi á engan hátt verið tryggt í garðinum og að miklir vankantar hafi verið á eftirliti og áhættumati. Þannig hafi starfsmönnum verið heimilt að vera einir innan um dýrin og án möguleika á að kalla að aðstoð í neyð.

Atvikið átti sér stað í júní 2012 þegar starfsmaður, sem unnið hafði um árabil í garðinum, fór einn síns liðs til að sinna dýrum í úlfagryfjunni. Þegar ekkert hafði spurst til konunnar í nokkurn tíma fundu samstarfsmenn hennar hana látna.

Réttarhöld hafa staðið síðustu sjö vikurnar. 

Kolmården er stærsti dýragarður Norðurlanda og er að finna fyrir utan Norrköping.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×