Innlent

Formaður eftirlitsnefndarinnar segir fátt mæla gegn því að Reykjanesbær fái frest

Birgir Olgeirsson skrifar
Reykjanesbær er á kafi í skuldum en þær nema 40 milljörðum króna.
Reykjanesbær er á kafi í skuldum en þær nema 40 milljörðum króna. Vísir/GVA
„Það er ekkert sem ættu að vera beinlínis rök fyrir því að hafna beiðni þeirra,“ segir Þórir Ólafsson, endurskoðandi og formaður eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélag, um bón Reykjanesbæjar þess efnist að eftirlitsnefndin veiti sveitarfélaginu frekari frest á að bænum verði skipuð fjárhaldsstjórn.

Þórir telur allar líkur á að þessi frestur verði veittur þegar nefndin kemur næst saman sem verður að öllum líkindum í þessari viku.

„Staðan er þannig hjá þeim að sveitarstjórnin hefur haldið mjög vel á öllum málum og það er búið að ná mjög góðum tökum á öllum rekstri þarna. Í sjálfu sér er þetta skuldavandi sem þarf að leysa en það þarf ekkert að gerast í dag eða á morgun. Ef þeir geta leyst hann sjálfir á einhverjum fresti þá  væri miklu æskilegra að það  yrði gert en að ríkið sé að skipa fjárhaldsstjórn til að leysa það sem þeir telja sig jafnvel geta leyst sjálfir. Það eru slík sjónarmið sem munu koma til skoðunar hjá okkur,“ segir Þórir.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tilkynnti á fundi sínum 3. maí síðastliðinn að samningar við kröfuhafa væru ekki í sjónmáli. Skuldir sveitarfélagsins nema rúmum fjörutíu milljónum króna og hafði eftirlitsnefndin lagt það til við innanríkisráðherra yrði skipuð fjárhaldsstjórn. Á fundi bæjarstjórnar í gær óskuðu bæði meiri- og minnihluti stjórnarinnar eftir lengri frest til að ná samningum við kröfuhafa.

Frá því bæjarstjórnin tilkynnti eftirlitsnefndinni að samningar væru ekki sjónmáli hefur viðræðum við kröfuhafa verið haldið áfram og því enn von til þess að samningar náist um breytingar á skuldum Reykjanesbæjar.

„Slíkir samningar myndu um leið létta á greiðslubyrði þess og gera því kleift að leggja fram raunhæfa aðlögunaráætlun eins og lög gera ráð fyrir,“ segir í bókun meirihlutans.

Fulltrúar minnihlutans í Sjálfstæðisflokknum lögðu til að fresturinn yrði veittur til áramóta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×