Skoðun

Af gömlum körlum, spilaborgum og konum með typpi

Þóranna K. Jónsdóttir skrifar
Í sjónvarpsþáttunum House of Cards rígheldur Underwood í völdin, valdanna vegna. Ekki vegna þess að hann hafi neitt gott til málanna að leggja, heldur bara til að vera á toppnum. Líf hans virðist snautt af öðrum tilgangi en þeim að drottna og deila. Svona eru líka gamlir íslenskir kóngar. Blindir á allan þann skaða sem þeir hafa valdið og sannfærðir um að ekki nokkur sála aðrir en þeir geti gert neitt gagn hvort sem það er á forsetastóli eða annars staðar.

Mein veraldarinnar eru gamlir karlar í jakkafötum sem hlusta ekki á neitt nema valdabrjálæðið í hausnum á sér. Fjölbreytnin er engin og enginn annar kemst að borðinu. Og hvert hefur það leitt okkur?

Heimurinn treystir enn á jarðefnaeldsneyti, ekki af því að það sé rökrétt á nokkurn hátt, heldur vegna þess að karlarnir í jakkafötunum græða á því. Auði heimsins er misskipt því að gamlir karlar í jakkafötum ríghalda í sitt og kunna ekki að deila frekar en smábörn sem eru að byrja á leikskóla.

Þrátt fyrir að við eigum meira en nóg af matvælum til að fæða allan heiminn sveltur stór hluti mannkynsins, á meðan stór hluti þess deyr úr sjúkdómum sem eru engu að kenna öðru en ofáti og gróðafíkn sem leiðir til þess að matvæli verða óhollari og óhollari.

Til þess að eiga séns á að komast áfram virðast konur þurfa að fara í jakkaföt (=dragt) og haga sér eins og þær séu líka með typpi. Deila gildum græðgi og valdafíknar. Falla inn í hópinn. Fjölbreytnin gæti nefnilega verið hættuleg og þá hrynur spilaborgin. Jafnréttisbaráttan er í krísu því það eru allir hættir að nenna að hlusta og hlutirnir færast aftur á bak.

Ég legg til að við keyrum upp aðra baráttu – fjölbreytnibaráttuna.

Fjölbreytnibaráttan leggur áherslu á kosti fjölbreytileikans í öllum þáttum lífsins. Sterk táknræn leið til að hefja fjölbreytileikann til vegs og virðingar væri að banna jakkaföt, því þau eru einkennisklæðnaður gömlu-karla-elítunnar. Gömlu karlanna sem vilja ráða heiminum og hafa satt best að segja drullað upp á bak. Hverjir eru með mér?!

Vive la différence!




Skoðun

Sjá meira


×