Í blaðinu, sem dreift var í öll hús á höfuðborgarsvæðinu í dag, er fjögurra blaðsíðna grein eftir stjórnmálafræðiprófessorinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson þar sem hann rekur stjórnartíð Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins. Yfirskriftin: „Tímamótin 1991“ en það ár tók Viðeyjarstjórnin svokallaða við stjórnartaumunum. Margir hafa furðað sig á þessum skrifum í dag enda sjaldan sem slíkar „lofgjarðir“ um ritstjórnarmeðlimi rata með þessum hætti á síður blaðanna.
„Þegar ég settist niður í morgun, drakk kaffið og borðaði brauðbollu með osti, breiddi ég úr Morgunblaðinu, sem Árvakur hafði sent mér „ókeypis". En svo kom gjaldið: 4 blaðsíður um afrek frá stjórnmálaferli ritstjórans, Davíðs Oddssonar, með 7 ljósmyndum af honum með öðrum valdsmönnum,“ segir Óðinn Jónsson sem furðar sig á sumum þeirra afreka sem Hannes eignar Davíð í greininni.
Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason klóraði sér að sama skapi í hausnum yfir umfjöllun Hannesar sem hann segir vera til marks um það hvernig Morgunblaðið er að verða „stöðugt skrítnari fjölmiðill.“

„Það voru uppi bollaleggingar um að Davíð Oddsson hefði í hyggju að bjóða sig fram til forseta. Þessi greinaskrif hefðu líklega talist gott innlegg í þá baráttu,“ segir hann ennfremur.
Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landsspítalans, rak að sama skapi í rogastans þegar hún fékk Morgunblaðið inn um lúguna í morgun.
Hún hafði þó ekki verið lengi að komast til botns í málinu.
„Ástæðan reynist að helsti aðdàandi ritstjórans þurfti að koma doltlu frà sér. À tveimur opnum. Bara á Íslandi!“ skrifar Anna á Facebook.
„Ég segi fyrir mig að ef ég ynni á Morgunblaðinu, þá myndi mér blöskra svo mjög þetta uppátæki Davíðs ritstjóra að láta skrifa um sig fjögurra síðna helgramannasögu og birta í blaðinu, að ég gæti ekki unnið þar lengur.“
Illugi bætir um betur og segir að grunnskólakrakki sem hefði skrifað þennan texta hefði einfaldlega fengið núll í einkunn. „En höfundurinn er prófessor í stjórnmálafræði við sjálfan Háskóla Íslands.“