Fótbolti

Leikur í bandarísku kvennadeildinni fór fram á alltof þröngum velli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og sjá má voru aðstæður ekki boðlegar.
Eins og sjá má voru aðstæður ekki boðlegar.
Jeff Plush, framkvæmdastjóri bandarísku kvennadeildarinnar í fótbolta (NWSL), hefur beðist afsökunar á því að leikur Western New York Flash og Seattle Reign hafi farið fram við óviðunandi aðstæður.

New York Flash spilar venjulega á Sahlen's Stadium en vegna tónleika sem voru haldnir á vellinum var leikurinn færður yfir á Frontier Field, hafnarboltavöll í Rochester, New York.

Vandamálið var að völlurinn sem leikurinn í gær fór fram á var alltof þröngur.

Reglur NWSL deildarinnar kveða á um að vellir þurfi að vera 64 metrar á breidd en Frontier Field er aðeins rúmlega 53 metra breiður.

Fjölmargir lýstu yfir óánægju sinni á Twitter í gær, þ.á.m. bandarísku landsliðskonurnar Carli Lloyd, Alex Morgan og Megan Rapinoe.

Kanadíska landsliðskonan Christine Sinclair, samherji Dagnýjar Brynjarsdóttur hjá Portland Thorns, tísti einnig: „Hvernig er þetta í lagi? Þetta er ekki boðlegt fyrir atvinnumannafótbolta. Völlur fyrir sex á móti sex?“

Plush sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir að það hafi verið röng ákvörðun að spila leikinn á þessum velli.

Hann bað jafnframt leikmenn deildarinnar, þjálfara og stuðningsmenn afsökunar á þessu leiðindamáli.


Tengdar fréttir

Fyrsta tap Portland

Dagný Brynjarsdóttir lék allan leikinn fyrir Portland Thorns sem tapaði 1-2 fyrir Kansas City á heimavelli í bandarísku kvennadeildinni í fótbolta í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×