Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndagerð (FRÍSK) hefur ásamt öðrum höfundarréttarfélögum lagt fram kæru á hendur stjórnanda skráarskiptasíðunnar Deildu.net. Þá hefur FRÍSK eitt og sér lagt fram kæru á hendur nokkrum af notendum síðunnar sem hafa hlaðið upp á hana íslenskum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Þetta staðfesta heimildir Fréttablaðsins.
Til þess að hafa uppi á hinum kærðu fengu félögin aðstoð frá utanaðkomandi fyrirtæki sem rannsakaði málið. Það hafði lögreglu ekki tekist að gera en þess er vert að minnast að eitt félaganna, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF), kærði lögreglu fyrir seinagang í rannsóknum á Deildu.net.
Tap innlendra höfundarréttarhafa vegna ólöglegs niðurhals er talið nema rúmum milljarði króna á ári. Það kemur fram í skýrslu um umsvif sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðar á Íslandi sem Capacent vann fyrir FRÍSK og var kynnt í maí.
Ekki náðist í Hallgrím Kristinsson, stjórnarformann FRÍSK, við vinnslu fréttarinnar.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Kæra stjórnanda Deildu

Tengdar fréttir

Bíður ákæru fyrir að setja Sönn íslensk sakamál á Deildu
Hæstiréttur hafnaði í dag kröfu manns um að haldlagningu raftækja hans yrði aflétt. Maðurinn er bíður ákæru fyrir að hafa deilt myndefni ólöglega.

Loka á vefsíðurnar óháð hýsingu þeirra
Rétthafasamtök hafa náð samkomulagi við helstu fjarskiptafyrirtæki landsins um hvernig lögbannið verði túlkað og framfylgt.

Setti myndir af barnsmóður sinni í kynferðislegum stellingum á Deildu
Er einnig grunaður um að hafa kveikt í rúmi í íbúð á Selfossi.

5500 manns búnir að sækja Ghetto betur ólöglega
Þætti Steinda Jr., Ghetto betur, hefur oftar en 5.000 sinnum verið halað niður á tveimur vikum. Þátturinn er í fyrsta sæti yfir vinsælustu skrárnar á deilisíðunni deildu.net og talan hækkar stöðugt.