Erlent

Fundu áður óþekkta tegund af risaeðlu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Risaeðlan er vel varðveitt í steingervingi.
Risaeðlan er vel varðveitt í steingervingi.
Vísindamenn hafa uppgötvað áður óþekkta tegund af risaeðlu en hún er vel varðveitt í steingervingi sem fannst á byggingarsvæði í Kína.

Litlu mátti muna að steingervingurinn hefði eyðilagst á byggingarsvæðinu þar sem iðnaðarmennirnir voru að koma dýnamíti fyrir þegar þeir ráku augun í hann. Risaeðlan hefur þegar fengið nafn á latínu sem á íslensku gæti útlagst sem „Leðjudreki á leið til himna.“

Steingervingurinn fannst í fjöllum í Suður-Kína. Hann er á stærð við kind en risaeðlan tilheyrir sérstökum hóp af eðlum sem voru fiðraðar. Hópurinn var seinasti hópur risaeðla til að eiga blómaskeið sitt áður en smástirni skall á jörðinni sem útrýmdi dýrategundinni.  

Greint er frá uppgötvuninni í vísindatímaritinu Nature Scientific Reports, en fjallað er um málið á vef BBC. Vísindamenn segja fundinn afar merkilegan, ekki síst fyrir þá innsýn sem hann veitir inn í þróunarsögu fugla en risaeðlur voru forverar þeirrar dýrategundar.

Steingervingur á borð við þann sem fannst nú getur því gefið vísindamönnum hugmynd um hvernig forfeður nútímafugla hafa litið út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×