Erlent

Stúlkan með grænu augun rekin úr landi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ljósmynd af Sharbat sem birtist í Nat­ional Geographic vakti heimsathygli.
Ljósmynd af Sharbat sem birtist í Nat­ional Geographic vakti heimsathygli. Nordicphotos/AFP
Sharbat Gula, afganska konan sem prýddi fræga forsíðu tímarits National Geographic, var vísað burt frá Pakistan í gær eftir að hún var sökuð um að vera með fölsuð skilríki. Henni var fylgt yfir landamærin með fjórum börnum sínum í gær en hún hafði flúið ættland sitt ung að aldri. Gula er nú 45 ára.

Hún var einnig dæmd í fimmtán daga fangelsi en þann dóm afplánaði hún á sjúkrahúsi þar sem hún gekkst undir meðferð við lifrarbólgu C.

Á forsíðumyndinni frægu, sem birtist árið 1985 og hefur verið kölluð „Afganska stelpan“, má sjá Gula í rauðum klæðum og vöktu stingandi græn augu hennar mikla athygli. Myndin var tekin 1984 í flóttamannabúðum í Pakistan en þangað hafði fjölskylda hennar flúið eftir að Sovétmenn hernámu Afganistan. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×