Skoðun

Í blindri reiði

Ingibjörg Kristjánsdóttir skrifar
Í gær birtist hér á Vísi merkilegur pistill eftir Sigurð Einarsson fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings. Hann varpar all svakalegu ljósi á hvernig atburðarásin eftir hrun bankanna var hönnuð fyrirfram af embættis- og stjórnmálamönnum og síðan matreidd ofan í almenning með styrkri hjálp fjölmiðla.

Fjölmiðla sem voru sjálfir blindaðir af reiði og hneykslan m.a. vegna stóryrtra yfirlýsinga frá sérstökum saksóknara, Evu Jolie og vinum hennar. Og það var ekkert feimnismál að menn voru búnir að ákveða fyrirfram að tilteknir menn væru sekir, það tók því varla að eyða tíma og peningum í að rannsaka nokkuð, niðurstaðan hefði verið sú sama hvort sem er.  Embættis- og stjórnmálamenn voru fljótir að bregðast við með því að koma saman starfshópi undir nafninu Control Tower/Coordination Committeea.  

Einn tilgangur nefndarinnar virðist hafa verið að sjá til þess að allri sök yrði varpað á bankana, stjórnendur og eigendur þeirra. Tryggja að sökinni yrði aldrei beint gegn Seðlabankanum, embættis- eða stjórnmálamönnum sem vissulega báru sinn hluta ábyrgðarinnar á þessum skelfilegu aðstæðum.  Reiðin var svo mikil og þess beinlínis krafist að einstaklingar yrðu ákærðir í alþjóðlegri efnhagskreppu sem hafði skelfilegar afleiðingar á Íslandi eins og annarsstaðar í heiminum.  Í fundargerð nefndarinnar sem Sigurður vitnar til í grein sinni, kemur fram að nefndin er búin að ákveða aðgerðir gegn bankamönnum án þess að sannanir liggi fyrir um að brot hafi átt sér stað og rannsóknir hjá nýstofnuðu Embætti sérstaks saksóknara á algjöru frumstigi.   

Ég er í raun ekki hissa að almenningur trúði því sem lagt var fyrir hann, enda var offorsið slíkt. Ég geri mér grein fyrir því að margir trúa flestu illu upp á bankamenn og eigendur bankanna enn í dag, en ég veit einnig að margir eru farnir að efast. Það er hins vegar erfitt fyrir margan manninn að koma fram í dag og kyngja því sem sagt hefur verið. Það er erfitt að bakka þegar maður hefur farið fram með stórkallalegar yfirlýsingar og staðreyndarvillur og það er allt skráð á alnetinu. Ég skil það í sjálfu sér. En það er hins vegar mikilvægt að þeir sem hafa upplýsingar sem gætu varpað frekara ljósi á þessi mál, liggji ekki á þeim, heldur komi fram með þær, jafnvel þó viðkomandi sé illa við bankamenn.

Það er alþekkt hér í Sierra Leone, þar sem ég er stödd þessa dagana (og hjá fleiri þjóðum í þessari heimsálfu), að ein af grunn ástæðunum fyrir viðvarandi fátækt og lítilli framþróun er spillingin sem þrífst á meðal embættis- og stjórnmálamanna. Í verkefnum Auroru hér í landi rekumst við oft á hindranir vegna þessa. Það eina sem við getum gert er að troða marvaðann og láta aldrei undan þrýstingi í þá veru.

Ef þetta er rétt sem kemur fram í grein Sigurðar, þá eru þessar aðfarir af hálfu íslenskra embættis- og stjórnmálamanna langtum alvarlegri heldur en tilraunir spilltra embættismanna hér í vanþróuðu landi, í þá veru að drýgja tekjur sínar.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×