Enski boltinn

Stjóri Gylfa rekinn og Bandaríkjamaður tekur við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Francesco Guidolin.
Francesco Guidolin. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson verður kominn með nýjan knattspyrnustjóra hjá Swansea City þegar hann snýr til baka til Wales eftir landsleikjahléið.

Swansea City rak í dag ítalska knattspyrnustjórann Francesco Guidolin og hefur þegar fundið eftirmann hans í Bandaríkjamanninum Bob Bradley.

Francesco Guidolin fékk ekki góða afmælisgjöf frá Swansea en hann heldur upp á 61. árs afmæli sitt í dag. Guidolin kom fyrst til félagsins á sex mánaða samningi í janúar eftir að Garry Monk var látinn fara. Hann skrifaði síðan undir tveggja ára samning í maí eftir að hafa skilað liðinu upp í tólfta sæti.

Það eru aðeins sjö leikir búnir að tímabilinu en Swansea City situr í 17. sætinu eftir sex leiki í röð án sigurs.

Swansea City vann nýliða Burnley í fyrstu umferð en hafa síðan aðeins náð í 1 stig af 18 mögulegum. Lokaleikur var 2-1 tapi á heimavelli á móti Liverpool um helgina en Swansea komst þar í 1-0.

Eigendur Swansea City eru bandarískir en þeir keyptu félagið í sumar og hafa nú fengið landa sinn í knattspyrnustjórastólinn.

Bob Bradley verður fyrsti bandaríski knattspyrnustjórinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Bradley var áður þjálfari franska liðsins Le Harve en hann þjálfaði bandaríska landsliðið í fimm ár frá 2006 til 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×