Enski boltinn

Liverpool-goðsagnir senda fyrrum liðsfélaga sínum batakveðjur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rigobert Song fagnar í leik með Liverpool.
Rigobert Song fagnar í leik með Liverpool. Vísir/Getty
Robbie Fowler, Jamie Carragher og Patrik Berger eru meðal þeirra sem hafa sent kveðjur til Rigobert Song á Twitter en leikjahæsti landsliðsmaður Kamerún varð fyrir miklu áfalli á dögunum.

Rigobert Song, fyrrum varnarmaður Liverpool, berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi í heimalandi sínu. Song fékk heilablóðfall og er í lífshættu. Hann veiktist á heimili sínu í höfuðborginni Yaounde.

Rigobert Song varð fertugur í sumar en hann lék síðast með Trabzonspor í Tyrklandi tímabilið 2009-2010 og varð tyrkneskur bikarmeistari á lokatímabilinu á ferlinum.  Hann hefur undanfarið ár verið þjálfari landsliðs Tsjad.

Rigobert Song lék með Liverpool frá 1998 til 2000 en hann fór þaðan til West Ham þar sem hann var til 2002. Song lék síðustu sex tímabilin sín í Tyrklandi.

Rigobert Song spilaði 35 leiki fyrir Liverpool-liðið á sínum tíma en hann á að baki 137 landsleiki fyrir Kamerún. Song spilaði á fjórum heimsmeistaramótum með Kamerún og varð einnig tvisvar Afríkumeistari með þjóð sinni (2000 og 2002).

Rigobert Song varð á sínum tíma sá fyrsti til að fá rautt spjald á tveimur heimsmeistaramótum en hann var rekinn af velli á bæði HM í Bandaríkjunum 1994 og á HM í Frakklandi 1998. Song var aðeins sautján ára þegar hann tók þátt í sinni fyrstu heimsmeistarakeppni.

Rigobert SongVísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×