Innlent

Kennarar VMA segja stutt í að betla þurfi í fyrirtækjum til að halda skólastarfi gangandi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Kennarar segja að ekki sé bruðlað með almannafé í skólanum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem kennarar við skólann senda slíka ályktun frá sér.
Kennarar segja að ekki sé bruðlað með almannafé í skólanum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem kennarar við skólann senda slíka ályktun frá sér. Vísir/Auðunn
„Kennarar í Verkmenntaskólanum á Akureyri mótmæla harðlega fjársveltistefnu ríkisvaldsins og stöðvun Fjármálaráðuneytis á greiðslu rekstrarfjár til skólans,“ segir í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi kennarafélags VMA. Kennarafélagið skorar á þingmenn og ráðherra að íhuga afleiðingar fjársveltistefnu fyrir nemendur og atvinnulíf.

Í ályktuninni segir að skólinn hafi búið við fjársvelti allt frá hruni, og þá ekki síst á síðustu tveimur árum. Þess vegna hafi skólinn verið rekinn með halla, en að ekki sé bruðlað með almannafé í skólanum heldur sé hallinn að mestu tilkominn vegna vanáætlana í fjárlögum.

„Verkmenntaskólinn gegnir lykilhlutverki fyrir norðlenskt samfélag og atvinnulíf. Frá skólanum hafa útskrifast milli sjö og átta þúsund nemendur frá upphafi. Á síðasta ári útskrifuðust 270 nemendur, þar á meðal 100 sveinar og meistarar í fjölmörgum og mismunandi iðngreinum.

Á þessu ári hefur tvisvar verið klippt á fjárveitingar til skólans og þannig komið í veg fyrir það að skólinn geti keypt nauðsynlegar rekstrarvörur. Ef fram heldur sem horfir þurfa skólayfirvöld að ganga með betlistaf milli fyrirtækja í bænum til að halda skólastarfinu gangandi.“

Kennarafélagið skorar á þingmenn og ráðherra að íhuga afleiðingar fjársveltistefnu fyrir nemendur og atvinnulíf.

Þann 19. september síðastliðinn greindi Vísir frá því að krísufundur hefði verið hjá starfsmönnum VMA og að íhugað væri að senda nemendur heim sökum fjárhagsvandræða.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra svaraði samdægurs í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi að skólinn hefði ekki staðið við tvíhliða samkomulag við mennta- og menningarmálaráðuneytið um dreifingu 24. milljóna króna skuldar við ríkissjóð.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slík ályktun kemur frá kennarafélagi VMA, en þeir sendu frá sér ályktun í maí síðastliðnum þar sem þeir sögðu skólann nánast gjaldþrota.

Ályktun kennarafélags VMA má lesa í heild sinni hér fyrir neðan

Ályktun um fjármál Verkmenntaskólans á Akureyri

Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur búið við fjársvelti allt frá hruni, ekki síst á síðustu tveimur árum. Skólinn hefur þess vegna verið rekinn með halla en auðvelt er að sýna fram á að sá halli er að mestu tilkominn vegna vanáætlana í fjárlögum. Það er ekki bruðlað með almannafé í VMA, fjárveitingar til skólans duga einfaldlega ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum. 

Verkmenntaskólinn gegnir lykilhlutverki fyrir norðlenskt samfélag og atvinnulíf. Frá skólanum hafa útskrifast milli sjö og átta þúsund nemendur frá upphafi. Á síðasta ári útskrifuðust 270 nemendur, þar á meðal 100 sveinar og meistarar í fjölmörgum og mismunandi iðngreinum.

Á þessu ári hefur tvisvar verið klippt á fjárveitingar til skólans og þannig komið í veg fyrir það að skólinn geti keypt nauðsynlegar rekstrar-vörur. Ef fram heldur sem horfir þurfa skólayfirvöld að ganga með betlistaf milli fyrirtækja í bænum til að halda skólastarfinu gangandi. 

Kennarar í Verkmenntaskólanum á Akureyri mótmæla harðlega fjársveltistefnu ríkisvaldsins og stöðvun Fjármálaráðuneytis á greiðslu rekstrarfjár til skólans. Við skorum á alla velunnara skólans að kynna sér þetta mál og leggjast á árar með stjórnendum og starfsmönnum til að tryggja nauðsynlegt rekstrarfé þegar í stað. Við skorum á þingmenn og ráðherra að íhuga afleiðingar fjársveltistefnunnar fyrir nemendur og atvinnulíf og hvetjum þá til að endurskoða þegar í stað stefnu sína gagnvart skólanum.

Aðalfundur kennarafélags VMA


Tengdar fréttir

Bjarni segir VMA ekki hafa staðið við tvíhliða samkomulag

Verkmenntaskólinn á Akureyri gerði samkomulag við Mennta- og menningamálaráðuneytið um dreifingu 24 milljón króna skuldar við ríkissjóð fyrr á þessu ári. Í samkomulaginu var gengið út frá ákveðnum forsendum um rekstrarhorfur á árinu 2016 sem Bjarni Benediktsson segir ekki hafa verið staðið við af hálfu skólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×