Fótbolti

Martinez tekur við belgíska landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roberto Martinez hefur lengi starfað í enska boltanum.
Roberto Martinez hefur lengi starfað í enska boltanum. vísir/getty
Roberto Martinez hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Belgíu en það var tilkynnt fyrr í kvöld. Martinez er 43 ára Spánverji og var síðast knattspyrnustjóri Everton.

Martinez, sem einnig hefur stýrt Swansea og Wigan á níu ára þjálfaraferli í Englandi, tekur við starfinu í Belgíu af Marc Wilmots sem kom Belgíu í 8-liða úrslit á EM í Frakklandi í sumar þar sem liðið tapaði fyrir Wales.

Eftir að Wilmots lét af störfum ákvað knattspyrnusamband Belgíu að auglýsa landsliðsþjálfarastarfið á heimasíðu sinni og var niðurstaðan sú að Martinez var ráðinn.

Belgía er hæst skrifaða Evrópuþjóðin á styrkleikalista FIFA og í öðru sæti á listanum, á eftir Argentínu. Liðið hefur þó ekki náð sínu allra besta fram á stórmótum síðustu ára og verður það verkefni Martinez að koma liðinu á HM 2018 í Rússlandi og fara langt á því móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×