Erlent

Obama gefst upp á þinginu: Kynnir nýjar takmarkanir á byssueign

Atli Ísleifsson skrifar
Barack Obama lætur af starfi forseta Bandaríkjanna í janúar 2017.
Barack Obama lætur af starfi forseta Bandaríkjanna í janúar 2017. Vísir/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti hyggst kynna nýjar takmarkanir á byssueign í Bandaríkjunum í byrjun næstu viku. Um að ræða röð forsetaákvarðana, þar sem sneitt er framhjá löggjafarvaldinu, það er Bandaríkjaþingi.

Í frétt Washington Post kemur fram að Obama beiti forsetavaldi sínu með þessum hætti þar sem hann segi Bandaríkjaþingi hafa mistekist að bregðast við byssuvanda ríkisins. Byssueign hefur um árabil mikið verið í umræðinni í Bandaríkjunum vegna tíðra skotárása.

Obama mun funda með Loretta Lynch dómsmálaráðherra eftir helgi til að leggja lokahönd á röð forsetaákvarðana sem kynntar verða í næstu viku, þeirra á meðal takmarkanir á byssueign.

Forsetinn hyggst meðal annars víkka út heimildir til að kanna bakgrunn byssukaupenda.

Forsetinn sagði í útvarpsávarpi að hann bregðist við þar sem hann hafi fengið of mörg bréf frá foreldrum, kennurum og börnum til að einfaldlega sitja hjá.

„Ég fæ einnig bréf frá ábyrgum byssueigendum sem syrgja í hvert sinn sem þessir harmleikir eiga sér stað; sem eru sammála mér að annar viðauki stjórnarskrárinnar tryggi rétt fólks til að bera vopn; og eru sammála mér í þeirri trú að við getum verndað þann rétt á sama tíma og við komum í veg fyrir að þessi óábyrgi, hættulegi og fámenni hópur valdi stórkostlegum skaða,“ segir forsetinn.

Washington Post greinir frá því að Obama hafi fyrir alvöru byrjað að kanna hvernig hann gæti takmarkað byssueign eftir árásina í Umpqua háskólanum í Roseburg í Oregon-ríki í október.

Obama lætur af starfi forseta Bandaríkjanna í janúar 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×