Skoðun

Bleiki skatturinn

Guðmundur Edgarsson skrifar
Fyrir skömmu birtist í Fréttablaðinu grein um hinn svokallaða bleika skatt. Ein tegund slíks skatts er þegar sambærileg vara er seld á hærra verði til kvenna en karla. Nefnt var sem dæmi í greininni að flaska af tilteknu dömuilmvatni kostaði umtalsvert meira en sambærileg flaska af herrailmi.

Hví eiga viðskipti sér stað?

Áður en við reynum að skýra hvað gæti valdið þessum verðmun á dömuilmvatninu og herrailminum er rétt að árétta hvað hvetur fólk til viðskipta yfirhöfuð. Skýra má þann hvata í eftirfarandi reglu:

Tveir einstaklingar, A og B, eiga þá og því aðeins viðskipti að báðir telja sig hagnast.

Tökum dæmi af bílaviðskiptum. A kaupir bíl af B fyrir milljón krónur því fyrir A er bíllinn a.m.k. eilítið verðmætari en það. Ef hann teldi að bíllinn væri nákvæmlega milljón króna virði væri enginn tilgangur með viðskiptunum og enn síður ef hann mæti bílinn ódýrari. Á sama hátt sæi B sér engan hag í að selja bílinn sinn fyrir krónu minna en milljón enda lagði hann upp með að hafa ábata af viðskiptunum.

Eftirspurnin meiri hjá konum?

Rökræðunnar vegna skulum við gera ráð fyrir að dömuilmvatnið og herrailmurinn séu fullkomlega sambærilegar vörur hvað gæði og kostnað varðar. Hvað getur þá skýrt verðmuninn? Jú, reglan að ofan. Ekki er ólíklegt að konur meti nefnilega dömuilmvatnið meira virði fyrir sig en karlar herrailminn. Eftirspurn kvenna eftir ilmefni er því hugsanlega meiri en hjá körlum sem endurspeglast svo í hærra verði.

Hvað er þá til ráða?

Tvennt er til ráða til að lækka verð á dömuilmvatni. Annars vegar að konur slaki á löngun sinni í ilmvatnið og dragi þannig úr eftirspurn. Hitt er að auka viðskiptafrelsi. Þá þarf að draga rækilega úr opinberum álögum og reglugerðarvæðingu svo að auðveldra verði fyrir nýja aðila að koma inn á ilmvatnsmarkaðinn. Þá eykst samkeppni og verð lækkar. Femínistar gerðu því margt vitlausara en að berjast gegn fórnarlambsnálgun og miðstýringaráráttu félagshyggjufólks og horfa til markaðslausna og frelsis í stað síaukinna pólitískra afskipta með tilheyrandi boðum og bönnum.




Skoðun

Sjá meira


×