Erlent

Savile notaði hvert tækifæri sem gafst til þess að fremja kynferðisbrot

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ný skýrsla um starfshætti BBC í tengslum við kynferðisbrot Jimmy Savile og Stuart Hall dregur upp dökka mynd.
Ný skýrsla um starfshætti BBC í tengslum við kynferðisbrot Jimmy Savile og Stuart Hall dregur upp dökka mynd. Vísir/Getty
Jimmy Savile framdi kynferðisbrot hvenær sem tækifæri gafst á meðan hann starfaði hjá BBC. Yfirmenn BBC fengu ekki ábendingar inn á sitt borð um kynferðisbrot hans og sjónvarpsmannsins Stuart Hall vegna sérstakrar óttamenningar sem ríkti innan breska ríkissjónvarpsins. Frægðarmenni á borð við þá tvo voru ósnertanlegir innan BBC.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu þar sem starfshættir stofnunarinnar rótgrónu í tengslum við kynferðisbrot Savile og Hall voru rannsakaðir. 

Í skýrslunni kemur fram að BBC hafi mistekist að koma í veg fyrir hryllilega misnotkun Savile og Hall. Undir þetta tekur forstjóri BBC sem segir ljóst að BBC hafi ekki verndað fórnarlömb þeirra tveggja og hefur hann beðist afsökunar á aðgerðarleysi BBC. 

Sagt að þaga vegna mikilvægi Savile

Í flestum tilvikum fengu yfirmenn ekki ábendingar um misnotkun mannanna sem voru mjög vel þekktir í Bretlandi á sínum tíma. Töldu starfsmenn það ekki vera sitt hlutverk að segja yfirmönnum frá brotunum.

Savile var landsfrægur útvarps- og sjónvarpsmaður en Hall starfaði í sjónvarpi. Í skýrslunni segir að frægðarmenni á borð við þá tvo hafi verið ósnertanleg innan BBC.

Ljóst þykir þó að minnsta kosti tveir háttsettir stjórnendur hafi mjög líklega vitað af kynferðisbrotum Hall og Saville innan BBC en ekkert aðhafst.

Sagt er frá því þegar starfsmaður BBC kvartaði seint á 9. áratug síðustu aldar undan kynferðislegri misnotkun af hálfu Savile hafi henni verið sagt af stjórnendum að þaga yfir málinu vegna þess hversu mikilvægur starfsmaður Savile væri.



Stuart Hall situr nú í fangelsi vegna brota sinna.Vísir/Getty
Framdi kynferðisbrot í nærri öllum byggingum BBC sem hann starfaði í

Brotin áttu sér stað yfir fimm áratuga skeið frá árinu 1959 en skýrslan ber kennsl á 72 fórnarlömb Savile, þar af átta sem var nauðgað. Hall er talinn hafa brotið á 21 fórnarlambi.

Hall er 86 ára en var árið 2013 dæmdur í fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 13 stelpum. Savile lést árið 2011, 84 ára gamall en var aldrei ákærður fyrir brot sín.

Í skýrslunni segir að Savile hafi framið kynferðisbrot hvenær sem tækifæri gafst og í nánast hverri einustu byggingu BBC sem hann starfaði í. Stundaði hann það að leyfa ungum strákum og stelpum að fylgjast með þætti sínum áður en hann réðst til atlögu gegn þeim inn í búningsherbergi sínu.

Helstu niðurstöður skýrslunnar

  • Ljóst er að Savile nauðgaði átta manns á meðan hann var við vinnu hjá BBC.
  • Meirihluta brotanna átti sér stað á áttunda áratug (1971-1980) síðustu aldar.
  • Yngsta fórnarlamb Savile var átta ára gamalt.
  • Átta óformlegar kvartanir bárust BBC vegna brota þeirra.
  • Hall misnotaði 21 konu, sú yngsta 10 ára, á árunum 1967 til 1991.
  • Tveir yfirstjórnendur vissu líklegast af brotum Hall innan BBC.
Hver var Jimmy Savile?

Savile var einn þekktasti sjónvarps- og útvarpsmaður Bretlands á sínum tíma auk þess sem framlög hans til góðgerðarmála voru vel þekkt. Svo vel þekkt að hann var kallaður heilagur Jimmy en alls safnaði hann um 40 milljónum punda til góðgerðarmála.

Ári eftir dauða hans stigu fjölmörg fórnarlömb hans fram og í ljós kom að hann var einn mesti kynferðisbrotamaður í sögu Bretlands. Misnotaði hann frægð sína og valdastöðu til þess að brjóta kynferðislega gegn hundruð einstaklinga af báðum kynjum.


Tengdar fréttir

Kynferðisafbrot Savile eiga sér tæpast hliðstæðu

Breska lögreglan telur mögulegt að fjölmiðlamaðurinn Jimmy Savile hafi verið miðpunktur kynferðisafbrotahrings sem misnotaði börn. Síðan fyrst spurðist af kynferðislegri misnotkun Savile og lögregla hóf rannsókn málsins hefur ábendingum hreinlega rignt inn til lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×