Dómur var kveðinn upp í gær en þeir játuðu brot sitt fyrir dómi. Báðir voru með andlitið hulið og klæddir hettupeysu, Ólafur Ingi með eftirlíkingu af skammbyssu og Jóel Maron með hníf. Ógnaði Ólafur gjaldkera með byssunni og tók peninga úr sjóðsvél sem gjaldkerinn neyddist til að opna.
Sjá einnig: Vitni lýsir ráninu í Landsbankanum
Til undirbúnings ráninu höfðu þeir tekið sendibifreið ófrjálsri hendi og komu á henni að bankanum. Þeir skildu bifreiðina eftir í gangi og óku á brott eftir ránið. Þeir földu síðar ránsfenginn og reyndu á annan hátt að dylja slóð sína.
Lögreglan hóf þegar umfangsmikla eftirgrennslan og var myndum af ræningjunum dreift. Ábendingar bárust um að ákærðu kynnu að hafa verið að verki. Þeir gáfu sig svo fram við lögreglu að tilstuðlan aðstandenda sinna um miðnætti sama dag og ránið var framið. Þá vísuðu þeir á ránsfenginn sem komst til skila.

Sjá einnig: Svona útveguðu ræningjarnir sér flóttabíl
Jóel Maron var með hreint sakarvottorð en Ólafur Ingi átti að baki þrjátíu daga fangelsisdóm fyrir umferðarlagabrot. Þeir eru rétt rúmlega tvítugir.
Sendibifreiðin sem þeir flúðu á eftir ránið var í eigu Hverafoldar bakarís en þeir höfðu rænt henni í Hafnarfirði fyrr um daginn. Í viðtali við Vísi greindi Jarek Kuczynski, eigandi bakarísins, frá því að hann hafi tilkynnt að bílnum hefði verið stolið og stuttu síðar fengið þær fréttir frá lögreglu að hann hefði verið notaður í bankaráni.
Bíllinn var skilinn eftir í Barmahlíð í Reykjavík og hófst umfangsmikil leit að þeim í Öskjuhlíðunni, þar sem meðal annars var notast við þyrlu Landhelgisgæslunnar. Alls voru fimm manns handteknir við rannsókn málsins.