Erlent

Átök í Tyrklandi: Þingmenn HDP handteknir

Díana Sjöfn Jóhannsdóttir skrifar
HDP flokkurinn er ásakaður um að vinna gegn tyrkneska ríkinu
HDP flokkurinn er ásakaður um að vinna gegn tyrkneska ríkinu
Leiðtogar og þingmenn stjórnmálaflokksins HDP í Tyrklandi hafa verið handteknir vegna ásakana um að hafa dreift áróðri fyrir uppreisnarmenn og hindra rannsókn á hryðjuverkum. Selahattin Demirtas, formaður flokksins, var handtekinn í Diyarbakir ásamt níu öðrum þingmönnum en einungis klukkutíma eftir handtöku Demirtas sprakk bílasprengja í borginni sem varð átta mönnum að bana og særði um hundrað.

Uppreisnarmenn hafa verið að berjast móti tyrkneska ríkinu í fjölda ára fyrir sjálfstæði Kúrda, sem er stærsti minnihlutahópurinn í Tyrklandi. Átökin milli HDP og ríkisstjórnarinnar spretta upp af þessum deilum en ríkisstjórnin vill meina að þeir þingmenn sem hafa verið handteknir séu í haldi vegna þess að þeir hafi neitað að mæta til yfirheyrslu er varðar rannsókn á hryðjuverkum.

Þá eru þingmennirnir sakaðir um að hafa verið að dreifa áróðri fyrir PKK sem er flokkur Kúrda, en flokkurinn er grunaður um fjölda árása á síðustu dögum, meðal annars bílasprengjuna. Frá þessu greinir vefur BBC

Kúrdíski verkamannaflokkurinn PKK hefur verið stimplaður sem hryðjuverkasamtök af Bandaríkjunum, Evrópusambandinu og Tyrklandi. PKK hefur verið í baráttu gegn tyrkneska ríkinu síðan árið 1970, í stríði sem hefur tekið um 40 þúsund líf. Mikil spenna hefur aftur sprottið upp í suðausturhluta Tyrklands þar sem Kúrdar halda sig að mestu eftir að vopnahlé hætti árið 2015.

Neyðarlög voru sett í Tyrklandi eftir misheppnaða tilraun hersins til valdaráns í júlí á árinu en neyðarlögin gera forsetanum Recep Tayyip Erdogan og ríkisstjórn hans kleift að fara framhjá alþingislögum og takmarka frelsi og réttindi einstaklinga að vild. Tyrkneskir stjórnarmenn eru venjulega með friðhelgi fyrir slíkri frelsissviptingu en þau lög voru afnumin í maí.

HDP flokkurinn í Tyrklandi er oftast álitinn sem helsta stuðningsafl Kúrda í flokkspólitíkinni, en flokkurinn höfðar sérstaklega til vinstri sinnaðra, frjálslyndra og umhverfis – og jafnréttissinna. Flokkurinn er þriðji stærsti í landinu með 59 sæti á þingi af 550. Forsvarsmenn flokksins hafa neitað alfarið um að vera tengdir kúrdíska verkamannaflokknum PKK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×