Erlent

Hneykslið í Suður-Kóreu: Forsetinn neitar að sértrúarsöfnuður hafi haft áhrif á stefnumótun stjórnvalda

Atli Ísleifsson skrifar
Park Geun-hye varð fyrsti kvenkyns forseti Suður-Kóreu þegar hún var kjörin í kosningum í desember 2012.
Park Geun-hye varð fyrsti kvenkyns forseti Suður-Kóreu þegar hún var kjörin í kosningum í desember 2012. Vísir/AFP
Park Geun-hye, forseti Suður-Kóreu, hafnaði því í dag að sértrúarsöfnuður hafi haft áhrif á stefnumótum stjórnar sinnar.

Park baðst í ávarpi til þjóðar sinnar afsökunar á að gamall vinur hennar hafi haft óæskilegan aðgang að stefnumótunarferli stjórnvalda, en málið hefur tröllriðið suður-kóresku þjóðfélagi síðustu dagana.

Í frétt BBC um málið segir að Park hafi samþykkt að koma fyrir nefnd til að svara spurningum um málið, en kvaðst jafnframt ekki ætla að segja af sér embætti.

Fjársvik og spilling

Vinkona Park, Choi Soon-sil, er grunuð um að hafa nýtt vinskap sinn við forsetann til að tryggja að fé úr opinberum sjóðum myndi renna í velgjörðarsjóð sem hún stýrir sjálf. Er hún nú í haldi lögreglu og sætir ákæru um fjársvik og spillingu.

Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn segir afsökunarbeiðni forsetans ekki hafa verið einlæg og hefur hvatt Park til að láta af embætti.

Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda sem kröfðust afsagnar Park í miðborg höfuðborgarinnar Seoul fyrr í dag.

Lengi verið vinkonur

Choi hefur lengi verið vinkona forsetans Park og er dóttir Choi Tae-min, leiðtoga sértrúarsöfnuðar með náin tengsl við föður Park, fyrrum forsetanum Park Chung-he.

Park hafnaði því jafnframt í dag að trúarathafnir sértrúarsafnaðarins hafi farið fram í forsetahöllinni í Seoul líkt og orðrómur hafi verið uppi um.

Málið hefur reynst forsetanum mjög erfitt og nýtur Park nú einungis vinsælda meðal fimm prósent suður-kóresku þjóðarinnar.

Búin að láta forsætisráðherrann fara

Park er nú þegar búin að skipta út forsætisráðherranum, gert hrókeringar í ríkisstjórn landins og vikið fjölda aðstoðarmanna frá störfum vegna málsins. Háværar kröfur eru hins vegar uppi um afsögn hennar og að hún verði dregin fyrir dóm.

Park varð fyrsti kvenkyns forseti Suður-Kóreu þegar hún var kjörin í kosningum í desember 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×