Skoðun

Atvinnuþátttaka fólks með skerta starfsgetu

Sigríður hanna Ingólfsdóttir skrifar
Á íslenskum vinnumarkaði eru ýmsar hindranir sem verða á vegi fólks með skerta starfsgetu. Um þriðjungur örorkulífeyrisþega er á vinnumarkaði og með einhverjar atvinnutekjur. Tækifærin til að stunda vinnu eru af skornum skammti fyrir þennan hóp fólks. Atvinnurekendur hafa verið tregir til að ráða fólk með skerta starfsgetu til starfa. Því þarf að fjölga verulega hlutastörfum og störfum með sveigjanlegan vinnutíma, tilhögun og fyrirkomulag. Vinnuveitendur þurfa að taka virkan þátt í að skapa fólki með skerta starfsgetu raunveruleg tækifæri til atvinnuþátttöku. Hér gæti hið opinbera sýnt gott fordæmi, meðal annars með lagasetningu gegn mismunun, ráða fólk með skerta starfsgetu til vinnu og draga verulega úr tekjuskerðingum.

Nýlega var viðtal á Stöð 2 við örorkulífeyrisþega sem var með 25 þúsund krónur í atvinnutekjur á mánuði fyrir skatt, en ávinningur af þeim atvinnutekjum var rúmar tvö þúsund krónur eftir skatt og tekjuskerðingar. Öryrkjabandalag Íslands hefur lagt áherslu á að afnema þurfi hinar miklu tekjuskerðingar og hefur lagt fram ítarlegar tillögur þess efnis í skýrslunni Virkt samfélag. Tillögurnar voru innlegg ÖBÍ inn í vinnu nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar. Í þeirri nefnd var sátt um að taka út krónu á móti krónu skerðingar fyrir alla lífeyrisþega. Því miður náði sú breyting ekki inn í drög félags- og húsnæðismálaráðherra að frumvarpi, sem var til umsagnar síðastliðið sumar. Hins vegar var vægi sérstakrar framfærsluuppbótar, uppbótaflokks sem skerðist krónu á móti krónu, óbreytt eða aukið með lögum sem voru samþykkt á Alþingi í október sl.

ÖBÍ hefur lagt áherslu á að farið verði strax í að bæta kjör lífeyrisþega með verulegri hækkun þannig að lífeyrir almannatrygginga dugi fyrir framfærslu í íslensku samfélagi. Enn fremur þarf að taka út krónu á móti krónu skerðingar og afnema víxlverkun í samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða. Þessar úrbætur er hægt að framkvæma strax ef vilji er fyrir hendi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Sjá meira


×