Innlent

Frosti hvergi banginn eftir hótunarbréf í póstinum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frosti Logason heldur úti útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu með Mána Péturssyni.
Frosti Logason heldur úti útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu með Mána Péturssyni. Vísir
Útvarpsmanninum Frosta Logasyni brá lítið eitt þegar hann fór í gegnum póstinn sinn í dag. Inn á milli ópnaðra gluggaumslaga leyndist bréf stílað á hann. Í bréfinu var að finna eftirfarandi skilaboð:

„Vonandi fer ekki fyrir þér eins og Vilmundi Gylfasyni.“

Ekkert frekar fylgdi bréfinu en stjórnmálamaðurinn Vilmundar Gylfason, sem var dóms-, kirkju og félagsmálaráðherra frá 1979-1980, svipti sig lífi árið 1983 skömmu eftir að hafa unnið kosningasigur með Bandalag Jafnaðarmanna sama ár. Vilmundur var aðeins 34 ára þegar hann lést.

Frosti segir að bréfið hafi verið skrifað í apríl síðastliðnum en hann hafi fyrst fundið það núna, innan um óopnaðan gluggapóst sem hann var að skoða í skúffunum sínum. Hann segist ekki munu missa svefn yfir bréfinu. 

Öllu vanur þegar kemur að hótunum

„Nei nei, alls ekki. Ég er ekki að fá svona í fyrsta skipti,“ segir Frosti. Hann fái reglulega bréfapóst frá „trúarnötturum“ sem óski honum þess að brenna í helvíti, eins og Frosti orðar það. 

Frosti segist þó hafa skoðað hvað hafi verið um að vera í apríl síðastliðnum til að reyna að átta sig á því hvaðan reiðin sé komin sem hafi orðið kveikjan að póstinum. Þetta hafi verið í Panamaskjalavikunni og auk þess hafi hann vitnað í fræga rægu Vilmundar í apríl. Hann sjái samt ekki hvað ætti að hafa farið fyrir brjóstið á einhverjum.

Frosti reiknar ekki með því að aðhafast nokkuð.

„Þetta er frekar ósmekklegt en ég er ekki að fara að missa svefn yfir þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×