Handbolti

Ætla aldrei aftur að dæma 10. desember

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson eru léttir þrátt fyrir höfuðhögg á sama degi með árs millibili.
Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson eru léttir þrátt fyrir höfuðhögg á sama degi með árs millibili. vísir/stefán
„Ég hef það ágætt. Það suðar reyndar enn töluvert í eyranu en annars er ég ágætur,“ segir Bjarki Bóasson handboltadómari en þrumuskot Adams Baumruk, í viðureign Hauka og Akureyrar í Olís-deild karla um helgina, small í stönginni og fór þaðan í höfuð Bjarka. Var gert hlé á leiknum meðan dómarinn jafnaði sig. Hann náði að klára leikinn og var lítið skammaður af þjálfurum og leikmönnum fyrir sína frammistöðu.

Leikurinn fór fram þann 10. desember en á þeim degi á síðasta ári fékk félagi hans, Gunnar Óli Gústafsson,  þrumuskot Geirs Guðmundssonar í hausinn. Geir þrumaði þá í stöngina, í viðureign Vals og FH og fór boltinn beint í höfuð Gunnars sem fékk heilahristing og var frá dómgæslu í tvo mánuði í kjölfarið. Bjarki dæmdi einn síns liðs síðari hálfleikinn.

Adam Baumruk leikmaður hauka mundar hér skothöndina en skot hans small í stönginni í leik um helgina og þaðan í höfuð Bjarka.vísir/anton brink
Dómaraparið er eitt af efnilegustu handboltadómurum Evrópu og hefur ferðast um víða veröld til að dæma. Bjarki segir að þessi dagsetning, 10. desember, sé langt í frá besti vinur þeirra félaga og trúlega muni flautan vera upp í hillu verði spilað á þessum degi á næsta ári. 

„Hlynur Leifsson verður að minnsta kosti ekki eftirlitsmaður hjá okkur verði spilað á þessum degi á næsta ári,“ segir hann léttur. Hlynur var einmitt eftirlitsmaður í leik Vals og FH í fyrra þegar Gunnar fékk boltann í höfuðið sællar minningar og aftur nú þegar Bjarki fékk boltann í höfuðið. „Þetta getur ekki verið tilviljun,“ segir hann og hlær.

Þrátt fyrir að vera léttur yfir atvikinu er Bjarki með suð og hellu fyrir fyrir öðru eyranu. Hann fann ekki fyrir neinum svima eða öðru eftir að leik lauk og skellti sér á tónleika um kvöldið með engum öðrum en Björgvini Halldórssyni. „Ég þóttist bara skemmta mér vel en ég heyrði í raun varla neitt,“ segir Bjarki. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×