Innlent

Markmiðið að rjúfa félagslega arfinn

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Koma á í veg fyrir að börn einstæðra fátækra foreldra verði sjálf fátækir foreldrar, segja þær Þuríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri Tinnu, og Elísabet Karlsdóttir, forstöðumaður félags- og fjölskyldumiðstöðvar Breiðholts.
Koma á í veg fyrir að börn einstæðra fátækra foreldra verði sjálf fátækir foreldrar, segja þær Þuríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri Tinnu, og Elísabet Karlsdóttir, forstöðumaður félags- og fjölskyldumiðstöðvar Breiðholts. vísir/eyþór
Tuttugu ungar einstæðar mæður í Breiðholti, sem fengið hafa fjárhagsaðstoð til framfærslu í lengri tíma, fá nú aðstoð hjá félags- og fjölskyldumiðstöð Gerðubergs til að byggja sig upp og afla sér menntunar. Verkefninu, sem er nefnt Tinna og fór í gang síðastliðið vor, er ætlað að rjúfa félagslegan arf.

„Úrræðið er hugsað fyrir unga einstæða foreldra og ef ungur einstæður faðir hefði uppfyllt skilyrði fyrir þátttöku hefði viðkomandi verið boðin þátttaka,“ tekur Elísabet Karlsdóttir, forstöðumaður félags- og fjölskyldumiðstöðvarinnar, fram.

Verkefnið og umgjörð þess byggist á niðurstöðum rannsóknarinnar; Jaðarstaða foreldra – velferð barna, sem Rannsóknarstofnun í barna og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands vann að beiðni velferðarsviðs borgarinnar. Þar var skoðað hvort atvinnustaða foreldra hafi áhrif á þátttöku barna í íþrótta- og tómstundaiðkun og hvaða hindranir verði á vegi foreldra sem fá fjárhagsaðstoð þegar þeir vilja nýta sér þjónustu fyrir börnin sín. Gert er ráð fyrir að a.m.k. 15-20 einstæðum foreldrum verði vísað í verkefnið á ári hverju, að því er segir á vef velferðarráðuneytisins sem styrkir verkefnið.

Elísabet segir verkefnið, sem er tilraunaverkefni til tveggja ára, klæðskerasniðið fyrir hvern og einn. Boðið er upp á alls konar námskeið eins og til dæmis í matreiðslu og hreyfingu auk foreldranámskeiðs. Börnin eru jafnframt aðstoðuð við að komast í tómstundir.

Þuríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri Tinnu, segir fyrstu mánuðina hafa farið í að kynnast fjölskyldunum og kanna áhugasvið þeirra, líðan og getu. „Konurnar eru misjafnlega fljótar að rétta úr kútnum en þær hafa það markmið að það verði jákvæðar breytingar á lífi þeirra og barnanna þeirra,“ segir hún.

Hún bætir við að í haust hafi svo verið hægt að gera einstaklingsáætlun. „Fimm kvennanna eru nú komnar í framhaldsskóla. Nokkrar eru í Mími Símenntun og ein í hópnum er komin í vinnu.“

Stutt skólaganga er sameiginleg með ungu mæðrunum. „Dæmi eru um að þær hafi ekki lokið námi í grunnskóla. Í þeim tilfellum höfum við getað nýtt grunnmenntaskóla Mímis eða Kvennasmiðjuna. Það eru fyrstu skrefin sem þarf að taka áður en hægt er að fara í lengra nám,“ segir Þuríður.

Elísabet leggur áherslu á að meginmarkmið verkefnisins sé að rjúfa félagslega arfinn þannig að börn einstæðu foreldranna verði ekki sjálf fátækir foreldrar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×