Lífið

Valdimar: Meira rokk á næstu plötu

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
„Lagið kemur ekki út strax en við ákváðum samt að taka það í þættinum,“ segir Valdimar Guðmundsson söngvari og forsprakki hljómsveitarinnar. Hljómsveitin Valdimar frumflutti lagið Vildi að þú vissir í Loga á Stöð 2. Lagið vann Valdimar í samstarfi við tónlistarmanninn Pétur Ben.

Valdimar sendi frá sér annað nýtt lag á dögunum sem heitir Slétt og fellt. Síðasta plata hljómsveitarinnar, Batnar útsýnið, kom út í lok árs 2014. „Það var kominn svolítið langur tími frá því að við gáfum út nýtt efni og við ákváðum að henda þessu lagi út,“ segir Valdimar.

Slétt og fellt er einnig unnið í samstarfi við Pétur Ben en lagið er komið í spilun á helstu útvarpsstöðvum og á tónlistarveituna Spotify. Myndband við lagið var birt á youtube á föstudaginn síðastliðinn en því var leikstýrt af Óskari Kristni Vignissyni.

Hljómsveitin vinnur að nýrri plötu en hún mun þó líklegast ekki koma út fyrr en á næsta ári. „Við erum komnir með hugmyndir af lögum,“ segir Valdimar en þó vantar enn dálítið upp á til þess að ljúka við þau öll. „Ég geri ráð fyrir því að á næsta ári komi út plata.“

Meira rokk á næstu plötu

Valdimar segir tónlist sína síður en svo vera að mildast þrátt fyrir að frumflutningur lagsins Vildi að þú vissir hafi verið lágstemmd. „Það verður væntanlega meiri rafmagnsgítar og meira rokk heldur enn áður,“ segir hann. „Svo veit maður ekkert hvernig lögin eiga eftir að þróast þannig að það getur vel verið að þau fari í allt aðra átt. En eins og staðan er núna finnst mér líklegt að þetta verði aðeins meira power.“

Airwaves hátíðin er á næsta leiti og Valdimar spilar að sjálfsögðu þar ásamt rjómanum af íslensku tónlistarfólki. Sveitin spilar á svokölluðum off-venue tónleikum á Bryggjunni á föstudaginn klukkan sex og treður svo upp í Iðnó síðar um kvöldið. Valdimar kemur einnig fram með öðrum tónlistarmönnum á hátíðinni, meðal annars Snorra Helgasyni.

Valdimar er sex manna band en hljómsveitin nýtur gjarnan liðsauka þegar hún kemur fram. „Við verðum með allavega tvo eða fleiri í brasssveitinni með okkur. Það verður bara eitthvað mikið stuð,“ segir Valdimar sem leikur sjálfur á básúnu.

Maraþonið var jákvæðnissprengja

Valdimar tók sem kunnugt þátt í auglýsingaherferð Reykjavíkurmaraþonsins í sumar. Þjóðin fylgdist með honum æfa af kappi fyrir hlaupið en hann fór tíu kílómetra.

Valdimar fullyrðir að þessi upplifun hafi haft ótrúleg áhrif á sig. „ Maður fór bara á fullu að hreyfa sig og þetta var allt ein jákvæðnissprengja, allt í kringum þetta.“ Valdimar bætir við að kostir þess að taka þátt hefðu verið miklu fleiri en þyngartapið eitt og sér. „Það var bara frábært að fá þetta tækifæri. Þarna var ofboðslega mikið af plúsum, fyrir utan á vigtinni.“ Hann segist hvergi nær hættur og heldur ótrauður áfram.   






Fleiri fréttir

Sjá meira


×